144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir nokkuð góða ræðu. Hún kom inn á þróunarsamvinnu og ég er henni sammála í því að við þurfum að auka hlut okkar og nota tækifærið þegar búið er að rétta hag ríkissjóðs við og taka á honum stóra okkar.

Það sem ég vildi ræða við hv. þingmann er það sem hún ræddi um græna hagkerfið og allt sem snýr að því að hindra hitnun jarðar. Ég vil spyrja hana að því hvað henni finnist um þá lausn sem Evrópusambandið hefur komið með um kvóta á losun koldíoxíðs eða koltvíildis, að sá markaður sé efldur, og hvort hún sé hlynnt því að við tökum upp það kerfi hér á landi, að menn fá greitt fyrir að rækta skóg og svo framvegis.

Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann með virkjanir Íslendinga. Við Íslendingar búum svo vel að hafa mjög umhverfisvæna orku. Ég vil spyrja hana hvort hún telji það ekki vera skyldu okkar gagnvart samfélaginu og heimsbyggðinni að virkja sem mest, eins og náttúran þolir, þannig að við getum lagt okkar af mörkum til að framleiða umhverfisvæna orku sem væri notuð í ýmsum tilgangi í iðnaði sem yrði þá fluttur hingað til Íslands.

Síðan talaði hv. þingmaður um háskólana. Ég vil spyrja hana hvort hún sé ekki ánægð með þá aukningu sem varð á framlögum í meðförum þingsins, en í tillögum meiri hlutans var aukið umtalsvert til háskóla.

Í næsta andsvari vil ég ræða við hana um læsi barna.