144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að gott aðgengi að framhaldsnámi sem næst heimabyggð er einn af mikilvægustu búsetukostunum. Menn líta til þess þegar þeir ákveða hvar þeir ætla að eiga heima. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar núna um fjöldatakmarkanir í framhaldsskólunum koma verst niður á litlum skólum úti á landi. Ég get nefnt Menntaskólann á Tröllaskaga þar sem er 18,4% fækkun ársnemenda og Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem er rúm 17% fækkun ársnemenda. Þetta eru tveir nýir skólar sem hafa svo sannarlega sýnt það með starfi sínu að þeir hafa getað mætt menntunarþörf í sínu nánasta umhverfi.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga byrjaði með deild á Patreksfirði, ef ég man rétt, og síðan hefur starfið vaxið. Þetta skiptir mjög miklu máli. Það er ekki hægt að sætta sig við að við sumar deildirnar fari framlagið, eins og framlag framhaldsskólanna, í gegnum menntamálaráðuneytið en annað sé bara háð sóknaráætlunum þar sem það fjármagn hefur verið skorið niður, eins og við þekkjum. Þetta hefur bitnað á dreifnámi. Að vísu man ég eftir því að í fjárlögum fyrir árið 2014 fóru sérstakar 15 milljónir í að koma til móts við dreifnám sem hefði annars fallið niður við niðurskurð á sóknaráætlununum. Það er mjög mikilvægt að þetta komist í fastar skorður, að þetta sé á vegum ráðuneytisins og fari í gegnum liðina sem úthlutað er þaðan svo að þessar framhaldsdeildir, nemendur og starfsmenn þurfi ekki að lifa í óvissu um hvort haldið verði áfram á næsta ári eða hvernig farið verði með þessar deildir, hvort sem það eru framhaldsdeildirnar eða dreifnámið í gegnum skólana.