144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Mig langar aðeins að koma inn á stöðu Ríkisútvarpsins og framtíðarsýn hv. þingmanns í þeim efnum. Minni hlutinn leggur fram tillögur um að allt útvarpsgjaldið renni til stofnunarinnar og þannig verði grundvöllurinn fyrir rekstrinum tryggður. Stjórn Ríkisútvarpsins hefur sent ákall til okkar þingmanna um að móta stefnu og standa við það að allt útvarpsgjaldið, eins og það er í dag, 19.400 kr., renni óskipt til stofnunarinnar. Hún hefur metnaðarfullar áætlanir um að styrkja ýmislegt varðandi uppbyggingu efnis á landsbyggðinni og starfsemi þar og framleiðslu á innlendu efni og barnaefni og að varðveita gamalt efni sem stofnunin hefur undir höndum. Hvernig sér hv. þingmaður að þessi mál eigi eftir að þróast?