144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:26]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og deili með henni áhyggjum af þeirri framtíðarsýn sem birtist þarna. Það slær mann þegar maður les þetta plagg, það sem ríkisstjórnin lagði upp með að gera, að það sem hún gerir nú fer alveg í þveröfuga átt. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Á hverjum heldur hv. þingmaður að breytingin á framhaldsskólakerfinu bitni helst, að hleypa ekki 25 ára og eldri í bóknám? Einhvern veginn finnst manni að hún muni bitna harðast á þeim sem minnst eiga og standa höllum fæti í félagslegu og efnahagslegu tilliti.

Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni eru til skólar eins og Keilir og fleiri. En það kostar peninga að fara þangað, sem getur verið erfitt fyrir venjulegt ungt fólk að reiða fram. Á hvaða hópi heldur hv. þingmaður að þetta bitni mest?