144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér finnst alltaf svolítið frískandi að hlusta á hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Hún segir oft það sem við mörg hugsum en segjum ekki endilega upphátt. Ég nefni sem dæmi þann tíma sem hún tók í að fara í þá umræðu að þeir sem ekki aðhyllast skuldaleiðréttingu ættu ekki að sækja um hana eða ættu ekki skilið að fá hana. Það er hárrétt, eins og hún sagði, að þetta er almenn aðgerð og hlýtur að gilda um alla í landinu, að allir geti sótt um. Það er hárrétt, sem hún sagði líka, að ef fólk afþakkar hana þá þýðir það ekki að peningarnir fari í eitthvað sem fólk vill eyða peningunum í. Mér finnst gott að einhver segi þetta upphátt í þessum sal, margir hafa hugsað þetta en ekki sagt það upphátt. Það er vel að það sé gert.

Hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á vinnubrögðunum eins og margir hér á þingi. Ég hef verið svolítið hugsandi yfir breytingu sem var gerð á hinum svokölluðu safnliðum sem búið er að taka aftur inn í hið pólitíska andrúmsloft — þeim hafði verið ýtt út og við vorum mörg mjög ánægð með þá aðgerð á síðasta kjörtímabili.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Heldur hún að beinlínis sé verið að hverfa til gamla tímans aftur? Er það það sem þessi stjórnarmeirihluti stefnir á? Eða var þetta, af einhverjum ástæðum, svona óvart núna?