144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 11. þm. Reykv. n. fyrir andsvar. Ég verð að segja í fullri hreinskilni að þegar þessi hugmynd um náttúrupassann kom fyrst fram var hún hluti af hugmyndum sem mér sýndust persónulega vera heldur óútfærðar þannig að ég eyddi engu svakalegu púðri í að kynna mér nákvæmlega hvernig ætti að útfæra hana. Það gleymist oft varðandi svona hugmyndir að það er í reynd ekki hægt að mismuna fólki á grundvelli þjóðernis. Það er ekki hægt að láta eitthvað ganga yfir útlendinga en ekki yfir Íslendinga. Þar liggja takmarkanir slíkra hugmynda, þær geta virst ágætar í fyrstu þar til maður fer að skoða réttindi annarra. Það er oft þannig. Það er oft sem frábærar hugmyndir koma fram sem gætu leyst helling af vandamálum en þær eru ekki mögulegar vegna þess að útfærslan krefst þess að brotið sé á einhverjum öðrum réttindum.

Einfalt dæmi væri ef við ætluðum að safna öllum heilbrigðisupplýsingum og öllum fjárhagsupplýsingum um alla Íslendinga á sameiginlegan stað. Það mundi leysa ýmisleg vandamál sem ríkið á við að stríða, vissulega, en það mundi brjóta á mannréttindum allra í landinu líka. Það er alveg þess virði að hafa í huga að réttindi eru sérstaklega hugsuð til þess að takmarka möguleika á aðgerðum. Það er alveg eðlilegt. En að því sögðu er síðan oft hægt að útfæra hugmyndirnar þannig að þær brjóti ekki á réttindum annarra.

Ég velti fyrir mér hvort möguleiki sé á einhvers konar náttúrupassa. Mér dettur ekkert í hug sjálfum. Þegar kemur að spurningu hv. þingmanns um að fjármagna þetta með skattfé veit ég ekki betur en það sé afgangur núna af ríkissjóði og ég veit ekki betur en að þetta sé sá iðnaður sem veitir okkur hvað mestu útflutningstekjurnar. Því finnst mér sjálfsagt að ríkissjóður standi að því að greiða þann kostnað sem felst í því að tryggja að náttúruperlur (Forseti hringir.) Íslands verði ekki fyrir skaða vegna of mikils fjölda ferðamanna. Ég kem betur að útfærsluatriðinu í seinna andsvari.