144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hann væri þannig innréttaður að honum þætti að allt ætti að vera leyfilegt sem ekki væri beinlínis bannað. Ég verð að segja að ég deili þeirri skoðun, ég er alveg hjartanlega sammála honum. Mig langaði að koma því að.

Hv. þingmaður talar mikið um opna fundi í nefndum þingsins. Ég er alveg sammála honum þar. Af hverju skyldu þeir ekki vera opnir? Mér finnst það ekki rök í umræðunni, eins og hv. þingmaður sagði að einhver hefði sagt við sig, að þá yrðu fundirnir bíó. Maður tók vissulega eftir því þegar fyrst var sjónvarpað frá nefndarfundum að fólk var frekar stíft, en þegar það var gert í annað eða þriðja skiptið hvarf sá stirðleiki. Mér finnst þetta sjálfsagt. Ég vil taka undir þá áskorun þingmannsins að við höfum fundi í nefndum opnari en nú tíðkast.