144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því alltaf þegar ég finn þingmann sem hefur áhuga á því að hafa opna nefndarfundi. Mér hafa aldrei fundist þau rök sem hafa komið gegn því að opna þá meira standast ítarlega skoðun. Svo oft er bent á vankanta sem ég sé ekki sem neitt sérstakt vandamál. Ef þingmenn vilja tjá sig við kjósendur á nefndarfundum á ákveðinn hátt þá gera þeir það. Mér finnst það fínt, mér finnst það allt í lagi. Við erum í vinnu fyrir þingið og mér finnst að almenningur hafi rétt á því að vita hvernig við nálgumst hin og þessi málefni. Mér finnst ekkert að því. Ég hef engar áhyggjur af því heldur, kannski er það bara ég en ég mundi ekki kippa mér upp við það að mín nefndastörf sæjust í beinni útsendingu, mér þætti það prýðilegt, ég yrði stoltur af því ef eitthvað er.

Það sem gleymist oft við opna nefndarfundi er að það er hægt að útfæra þá á svo marga vegu. Það er hægt að hafa það þannig (Forseti hringir.) að þeir séu aðeins opnir þegar gestir koma, að þeir geti hafnað því að hafa opið, það séu ákveðin málefni undanskilin. Það eru margar leiðir til (Forseti hringir.) til þess að útfæra þetta þannig að hægt sé að koma til móts við sjónarmið (Forseti hringir.) þeirra sem eru andstæðir opnum nefndarfundum.

Nú hef ég engan tíma. Ég er farinn að tala allt of hratt og legg að lokum til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.