144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst athyglisvert þegar hv. þingmaður fór yfir vinnubrögðin á Alþingi að hann teldi að það mundi verða til batnaðar að hafa fleiri opna fundi. Við erum með möguleika á opnum fundum eins og fram hefur komið. Ég tek undir með hv. þingmanni að bæta þurfi vinnubrögðin og að samtalið þurfi að vera markvissara á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um mál, ekki síst um fjárlögin. Ég mundi vilja byrja á því að bæta vinnubrögðin í nefndunum. Við erum svolítið mikið í því að fá gesti — auðvitað er það nauðsynlegt til þess að afla upplýsinga, við þurfum að spyrja gestina út úr — en við erum minna í því að ræða einstakar tillögur.

Ég get nefnt dæmi. Þegar breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar komu fyrir nefndina þá var ekki farið yfir hverja einustu tillögu. Að vísu voru skýringar á skýringablaði en við gátum ekki fengið gögn sem lágu á bak við allar tillögurnar. Samtalið í nefndinni hefði mátt vera markvissara. Nú er ég ekki að kenna meiri hlutanum einum um, minni hlutinn á auðvitað að gera kröfu um slíkt. Ég held að við getum öll bætt okkur hvað vinnubrögðin varðar.

Ég vil biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir það með mér hér af hverju hann telur það bæta vinnubrögðin að hafa fundina opna. Það getur verið ágætt að segja að maður eigi að geta sagt hvað sem er og leita niðurstöðu og ræða málin, en er það alltaf gott?