144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú væri óskandi að fleiri en núll hv. þingmenn meiri hlutans væru hérna til að ræða þetta við okkur. Ég er í grunninn á móti nefskatti. Mér finnst nefskattur vera eitt viðurstyggilegasta skattform sem til er, óréttlátur á ýmsan hátt. En nú liggur það fyrir og fullkomin samstaða er um það í stjórn Ríkisútvarpsins, sem þó er skipuð af meiri hluta, sem sagt af fólki sem meiri hlutinn tilnefndi sjálfur, þannig að meðal sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem eru í stjórn RÚV eða fulltrúar þeirra öllu heldur, ríkir fullkomin samstaða um það. Ef úr því verður sem ríkisstjórnin ætlar að gera hér, þá getur Ríkisútvarpið ekki staðið við lögin sem við erum búin að setja um Ríkisútvarpið. Þótt ég sé í grunninn á móti því að hafa nefskatt yfir höfuð og vildi auðvitað hafa hann sem lægstan ef mögulegt væri, þá þykir mér það ofboðslega vond aðferð að breyta stefnunni gagnvart Ríkisútvarpinu.

Ef við viljum og ef meiri hlutinn vill að Ríkisútvarpið starfi að miklu minna leyti en það gerir nú þegar þá ber að taka þá umræðu á forsendum laga um Ríkisútvarpið, ekki með því að kyrkja stofnunina með fjársvelti til að ná fram einhverri stefnubreytingu sem sennilega fengi ekki meiri hluta hér á þingi, þori ég að fullyrða reyndar. Mér finnst þetta algjört hneyksli í raun og veru og styð ekki þessa lækkun þótt ég sé í grunninn á móti nefskatti, vegna þess að þetta er röng aðferð að einhverju markmiði að því er lítur út fyrir. Ég vil ræða Ríkisútvarpið á forsendum Ríkisútvarpsins.

Svo er hitt að ég mundi vilja fjármagna þetta beint úr ríkiskassanum eins og aðrar stofnanir samfélagsins. Ég átta mig ekki alveg fyllilega á því hvers vegna menn fóru þessa leið til að byrja með, hvers vegna reksturinn var ekki bara fjármagnaður úr ríkissjóði. Það getur vel verið að einhver svakalega góð skattaleg ástæða sé fyrir því (Forseti hringir.) en hún er alla vega mér ekki ljós eins og stendur.