144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í lokaorðum hv. 8. þm. Reykv. n. kemur rót vandans fram. Rót vandans er sú að 60% þingmanna hafa 100% vald, sem þýðir að hér þarf að beita alls konar tækjum til að ná fram lýðræðislegum vilja, sem leiðir af sér að það hreinlega borgar sig ekki fyrir þingmenn meiri hlutans að sitja hérna og hlýða á þessar umræður. Þeir hafa ekkert gagn þar af þegar allt kemur til alls vegna þess að þegar á hólminn er komið hafa þeir allt valdið og semja þarf burt þann hluta af því valdi sem þeir eru reiðubúnir til að gefa eftir hvaða óskunda svo sem minni hlutinn tekur upp á að beita til að ná sínu fram.

Ég held að ef samtal yrði tekið um Ríkisútvarpið væri ekki meiri hluti fyrir því að breyta verksviði Ríkisútvarpsins. Ég trúi því hreinlega ekki þrátt fyrir 19 manna þingflokk Sjálfstæðisflokksins, því að ég trúi því ekki upp á Framsóknarflokkinn, sem ég trúi þó til ýmissa hluta, að vera hlynntur því að skerða Ríkisútvarpið með þeim hætti sem blasir við (Forseti hringir.) ef af verður, sem er áætlað, að minnka þessi fjárframlög með þessum hætti.