144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað í aðra ræðu mína í 2. umr. um frumvarp til fjárlaga 2015. Í fyrri ræðu minni fór ég ágætlega yfir samþykktir miðstjórnar ASÍ vegna fjárlagafrumvarpsins, en þær fyrirætlanir sem þar komu fram voru með ýmsu móti harðlega gagnrýndar. Ég fór einnig yfir afstöðu BSRB til hækkunar á matarskatti. Ég ræddi þó nokkuð vanda Íbúðalánasjóðs, lítillega ræddi ég heilbrigðismál og svo ræddi ég þróunaraðstoð og svik meiri hlutans í þinginu við þá þróunarsamvinnuáætlun og fjárveitingar til hennar sem þeir samþykktu á síðasta kjörtímabili, allir þingmenn sem einn, utan hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sem nú mótar stefnu meiri hlutans varðandi þróunaraðstoðarmál og er sú stefna því miður ekki bara meiri hlutanum til skammar heldur okkur öllum í þessum þingsal.

Það voru ýmis atriði sem út af stóðu í ræðu minni og reyndar má segja að halda mætti mjög margar ræður um þetta slæma frumvarp en í þessari ræðu mun ég einbeita mér einna helst að tilfærslukerfinu og sjá svo til hvort ég hafi tíma til að ræða um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu í lokin.

Það er þrennt í tilfærslukerfunum sem ég ætla að beina sjónum mínum að, það er fæðingarorlofið, atvinnuleysistryggingar og lífeyrisgreiðslur. Það koma nú fréttir innan úr velferðarráðuneyti að skipaður hafi verið starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála. Fyrir okkur sem höfum aðeins komið nálægt þessum málum er þetta í fyrsta lagi vandræðalegt og í öðru lagi lýsir það fullkomnu áhugaleysi núverandi meiri hluta þingsins á að koma til móts við barnafjölskyldur, þær fjölskyldur sem eignast lítil börn og þurfa að sinna þeim. Ég ætla aðeins að ræða fæðingarorlofið. Það var einna ríkulegasta tryggingakerfið sem við vorum með og því var komið á í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir hafa státað sig mikið af því og mega það líka enda held ég að fátt hafi haft meiri áhrif á jafnréttismál í fjölskyldum landsins en sú löggjöf. Þetta var mjög ríkulegt kerfi, svo ríkulegt að fljótlega tæmdist sjóðurinn því að karlarnir sem fóru að taka orlof í meira mæli en áætlað var voru sumir svo tekjuháir að ekki þurfti nema nokkra tugi þeirra úr allra hæstu tekjulögunum til að tæma sjóðinn. Þá var farið að innleiða þök á greiðslur. Þegar hrunið verður 2008 þá er þakið enn þá mjög hátt og farið var inn í það kerfi í hlutfallslega meira mæli en önnur, einfaldlega vegna þess að þangað var mesta fjármuni að sækja. Aðstæður voru mjög erfiðar, atvinnuleysi hafði aukist mikið og þá þurfti að finna fjármunina einhvers staðar. Svo var komið að fæðingarorlofsþakið var komið niður í 300 þús. kr. og allir vita að það er langt undir meðaltekjum.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur breytti lögum um fæðingarorlof í desember 2012 og ákvað að frá 1. janúar 2014 skyldi fara að lengja fæðingarorlofið og þeirri lengingu skyldi ljúka 1. janúar 2016 þegar fæðingarorlofið yrði tólf mánuðir í stað níu eins og það er núna. Það mundi skiptast þannig að móðir eða annað foreldrið — en það gætu auðvitað verið tvær mæður eða tveir feður — hefði sjálfstæðan rétt til fimm mánaða, hitt til fimm mánaða og svo ættu foreldrarnir sameiginlegan rétt upp á tvo mánuði sem þeir gætu skipt sín á milli eftir vild. Auk þessara breytinga var ákveðið að hækka verulega greiðsluþakið, úr 300 þús. kr. á mánuði í 350 þús kr. Jafnframt var bent á að haldið yrði áfram á þeirri braut að hækka fæðingarorlofið upp í þær fjárhæðir sem það var í þegar það var komið í eðlilegan ballans rétt fyrir hrun. Þannig að þrátt fyrir erfiðan niðurskurð var búið að breyta lögum, gera fyrirætlanir um lengingu og hækkun á orlofinu var hafin. Ný ríkisstjórn var varla tekin við þegar hún hætti við að halda áfram með auðlegðarskatt og dró úr veiðigjöldum, henni tókst að byrja á því. Fæðingarorlofið kom fljótlega á eftir sem aðgerð til að færa frá þeim sem meira þurfa á að halda til þeirra sem minna þurfa á að halda. Fyrir ári síðan var með lögum hætt við lengingu orlofsins en ákveðið að hækka það um 20 þús. kr., úr 350 í 370 þús. kr. Félags- og húsnæðismálaráðherra fór þá mikinn — hún er að móta sérstaka fjölskyldustefnu sem hefur ekki sést til hér í þinginu — en hefur ekki talað um fæðingarorlofið síðan. Hún benti þá á að hækkanir hefðu verið 70 þús. kr. á árinu og tók þá með 50 þús. kr. hækkun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og reyndi að fela meðferð sína á kerfinu með því að skreyta sig með hækkunum fyrri ríkisstjórnar. En áform um hækkun á orlofinu hafa ekki gengið eftir og lenging á orlofinu er ekki í sjónmáli. Nú er búið að skipa nefnd ári síðar, svo mikill er áhuginn á fæðingarorlofsmálum. Hann var meiri þegar niðurskurðurinn var gagnrýndur á sínum tíma, það get ég staðfest. Þegar núverandi stjórnarflokkar eru komnir með völdin sést áhugaleysið vel og það tók heilt ár að koma á starfshópi. Það er ekkert sem á að gera í þessum hópi annað en að tryggja að uppfyllt verði markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að því markmiði verði sem best náð á sama tíma og foreldrunum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Það er engin breyting á markmiðssetningu laganna. Það eina sem þarf eru peningar. Það þarf ekki að skipa neinn starfshóp. Það liggur fyrir, það er almenn ánægja með löggjöfina. En fæðingarorlofið er of stutt og þakið á greiðslurnar er of lágt. Það þarf engan starfshóp til að ákveða neitt um þetta. Það þarf samtal við ríkisstjórnarborðið um að forgangsraða fjármunum ríkisins til ungbarnafjölskyldna. Það samtal hefur ekki borið árangur, hafi það farið fram, nú veit ég það ekki. Þá felur ráðherra sig á bak við enn einn starfshópinn þannig að fæðingarorlofið hækkar ekki um næstu áramót og ekki lengist það. Það kemur ekki fram í frétt á síðu ráðuneytisins hvenær starfshópurinn á að ljúka störfum þannig að það er algerlega ómögulegt að gera sér grein fyrir hvenær megi vænta breytinga frá núverandi ríkisstjórn.

Þá langar mig að koma inn á atvinnuleysistryggingar. Í dag gætum við staðið hér og fagnað því hversu mikið dregið hefur úr atvinnuleysi. Atvinnuleysi fór hæst í um 9,2% í apríl 2009 þegar hrunið var að dynja yfir og atvinnuleysi var að aukast. Í október 2014 er það komið niður í 3,2%. Það er sannarlega ánægjuleg þróun, sýnir að efnahagslífið hefur tekið við sér en líka að vinnumarkaðsaðgerðir fyrrverandi ríkisstjórnar hafa sannarlega skilað sér, bæði í átaki til að bjóða upp á fjölbreyttari atvinnutilboð fyrir atvinnuleitendur og að auka möguleika fólks á atvinnuleysisskrá til að sækja sér menntun. Það má fagna því að þessi árangur hafi náðst en þá megum við heldur ekki gleyma því að 5.740 manns voru á atvinnuleysisskrá í október 2014. Það er enginn öfundsverður af því að vera á þeirri skrá og geta ekki nýtt krafta sína á vinnumarkaði eins og hugur hans stendur til og nauðsyn heldur þurfa að bíða milli vonar og ótta hvort það takist að afla atvinnu. Þetta eru 5.740 manns og af þeim hafa 448 verið án atvinnu lengur en tvö ár. Í sparnaðaraðgerðum sínum í fjárlagafrumvarpinu fannst ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum þetta einmitt vera fólkið sem ætti að taka á sig niðurskurð. Þeir fundu þarna fólkið sem var búið að vera tvö ár eða lengur á atvinnuleysisskrá, eða tvö og hálft ár, ég er ekki með nákvæmari tölur en það frá Vinnumálastofnun. Þetta var fólkið (Gripið fram í.) sem var svo tilvalið að tæki á sig frekari byrðar af hruninu. Þetta fólk er heldur betur búið að bera sínar klyfjar. En nei, það skal fá að bera meira. Og nú, án nokkurs samtals við verkalýðshreyfinguna, á að breyta lögum um atvinnuleysistryggingar og stytta atvinnuleysistímabilið um sex mánuði.

Atvinnuleysi er einna mest á höfuðborgarsvæðinu eða 3,5%, en mest er það þó á Suðurnesjum. Við skulum taka Suðurnes. Þar er Reykjanesbær sem var skilinn eftir í efnahagslegum rústum eftir Sjálfstæðisflokkinn og nú eru þar miklar aðhaldsaðgerðir og blóðugur niðurskurður og verið að leita leiða til að forða bæjarfélaginu frá gjaldþroti. Auðvitað geta bæjarfélög ekki orðið gjaldþrota, en þau eru tekin í gjörgæslu. Þetta eru miklar álögur á íbúana. Fólkið þar sem er búið að vera lengi atvinnulaust hefur verið á atvinnuleysisskrá og á þá rétt á fullum atvinnuleysisbótum, tæplega 179 þús. kr. Þetta eru lágar fjárhæðir. En sú fjárhagsaðstoð sem langtímaatvinnulausir á Suðurnesjum, í Reykjanesbæ, munu fá þegar þessi breyting tekur gildi, þegar þeir detta út af atvinnuleysisbótum, nemur tæplega 130 þús. kr. samkvæmt heimasíðu Reykjanesbæjar. Þannig að fólk sem er með mjög lágar tekjur frá Atvinnuleysistryggingasjóði fer í miklu lægri tekjur þegar það fær fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Ég skil ekki hvernig þingmenn stjórnarmeirihlutans treysta sér til að styðja svona breytingar nema þeir beinlínis geti sagt við kjósendur sína að þeir hafi enga samkennd með öðru fólki, hún sé eiginlega bara ekki til staðar.

Ég leit á heimasíðu Reykjavíkurborgar, það var hin heimasíðan sem ég skoðaði. Þar hefur félagshyggjufólk verið við völd á síðasta kjörtímabili og á þessu. Fólk sem fer af atvinnuleysisbótum og fær fjárhagsaðstoð í Reykjavík lækkar um tæpar 10 þús. kr. á mánuði, það hefur 10 þús. kr. minna á mánuði til framfærslu ef það uppfyllir 100% skilyrði. Það er nógu mikið áfall, en fólk sem hefur verið í þeirri stöðu að hafa verið atvinnulaust svo lengi og tekist á við ekki bara efnahagslega fylgifiska þess heldur líka þá andlegu erfiðleika sem því fylgja að fá ekki að nýta starfskrafta sína, það fær að taka á sig frekari efnahagsþrengingar. Þetta er skilningurinn sem því fólki er sýndur, þetta er náungakærleikur þingmannanna í meiri hlutanum.

Tími minn er að styttast en ég ætla að hefja umræðu um lífeyristryggingar. Nú á að hætta við verðlagsuppfærslu á bótum lífeyristrygginga og atvinnuleysistrygginga. Það átti að færa upp til verðlags um 3,5% en verður fært upp um 3% núna vegna breyttrar spár. Ég vil benda á hvað segir um þetta í lögum og lesa lagagreinina sem þetta varðar. Það er 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Með breytingartillögu frá meiri hlutanum og ríkisstjórninni væntanlega er gefið í skyn að það sé eiginlega bara skylda stjórnvalda að halda sig við hækkanir í samræmi við neysluverðsvísitölu. Svo er alls ekki. Neysluverðsvísitalan hefur nákvæmlega ekkert að segja varðandi hækkun þessara bóta nema það að hún myndar lágmark. Umframhækkanir eru ekkert vandamál. Það er ekkert í lögunum sem kemur í veg fyrir þær. Það er eingöngu einbeittur vilji til að láta þá sem minnst hafa bera þyngstar byrðar. Nú hefur þessi hópur lífeyrisþega tekið á sig umtalsverðar byrðar, enda eru lífeyristryggingar hátt hlutfall af útgjöldum lífeyrissjóða. Ég vil samt benda á að einu breytingarnar sem þessi ríkisstjórn hefur gert voru þó til ellilífeyrisþega varðandi grunnlífeyri. Þær skiptu máli og hafa vonandi komið sér vel fyrir hóp aldraðra. Mun færri örorkulífeyrisþegar lentu í alvarlegum skerðingum á grunnlífeyri þó að að þetta hafi líka haft einhver áhrif á þann hóp. Það kemur fram þegar félagsvísar Hagstofu Íslands eru skoðaðir að ellilífeyrisþegar eru í minni hættu á að lenda í efnislegum skorti, örorkulífeyrisþegar eru í einna mestri hættu af öllum á Íslandi að búa við efnislegan skort. Atvinnulausir eru jafnframt í þeim hópi sem og einstæðir foreldrar. Það kemur líka fram í ágætri greinargerð frá Talnakönnun um meðaltekjur öryrkja og kaupmátt, ef litið er til paraðs samanburðar úr skattframtölum, að kaupmáttur þeirra hefur dregist mjög aftur úr kaupmætti annarra hópa.

Nú er tíma mínum alveg að ljúka, en ég tel að það sé mjög mikilvægt að farið verði mjög rækilega yfir lífskjör þessara hópa, ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega, og skoðað hvar þeir standa í samanburði við aðra og hver þróunin hefur verið undanfarin ár, því að lífeyristryggingar snúast ekki eingöngu um fjárhæðir og mismunandi prósentutölur á hækkunum þeirra heldur eiga lífeyristryggingar að tryggja fólki mannsæmandi framfærslu.