144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er nú ekki það einasta að ekki hafi farið fram samráð heldur ríkir augljóslega fullkomið skilningsleysi á eðli þessara mála. Ég er algerlega sammála því að verið sé að auka enn á bilið milli þeirra sem eru með lífeyrisréttindi í sjóðum með ríkisábyrgð og hinna sem eru í sjóðum á almennum markaði sem ekki njóta ríkisábyrgðar en þurfa að skerða lífeyrisgreiðslur ef tryggingafræðilegt mat er neikvætt.

Það sem mun gerast með þessum boðuðu breytingum — það að fara eigi í breytingarnar kallar á breytingar á tryggingastærðfræðilegu mati og það mun leiða til skerðinga hjá þeim sem eiga réttindi í sjóðnum. Þó að fjármunum hafi verið bætt inn í flaustri til að seinka þessum skerðingum og enn einn starfshópurinn boðaður — það virðist vera það eina sem þessi ríkisstjórn getur gert, það er að skipa starfshópa — þá breytir það ekki því að lífeyrissjóðir á almennum markaði eiga yfir höfði sér þessar skerðingar og þurfa að taka tillit til þess í uppgjörum sínum samkvæmt lögum sem sett eru á Alþingi Íslendinga.

Það er ekki bara vandræðalegt, það er líka óþægileg tilhugsun að í meginplaggi ríkisstjórnarinnar komi fram að ríkisstjórnin skilur ekki eðli málaflokka sem verið er að vaða inn í og skerða, skilur ekki lagasetninguna að baki eða systemið sem hún er að setja í gang með þessum aðgerðum sínum.