144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt frumvarpinu á að stytta atvinnuleysistímabilið um sex mánuði. Samkvæmt frumvarpinu er verið að draga úr möguleikum fólks 25 ára og eldra til að sækja sér menntun í opinberum framhaldsskólum. Samkvæmt frumvarpinu er verið að draga úr vinnumarkaðsaðgerðum.

Það urðu margir fyrir barðinu á íslenska efnahagshruninu en fáir með sama hætti og þeir sem misstu atvinnuna eða sem hafa í kjölfarið misst atvinnuna. Ég hef engar sérstakar patentlausnir en vil þó benda á, eins og ég gerði í ræðu minni, að atvinnuleysið fór úr 9% niður í 3,2% og það er stórkostlegur árangur. En enn þá er hópur sem þarf að koma til móts við. Sá hópur fólks mun fara til vinnu þegar efnahagsástandið verður orðið enn betra, þegar búið er að koma samfélaginu í samt lag. Það er skylda okkar að tryggja öllum framfæri á meðan við erum að komast út úr erfiðleikunum, og almennt er það skylda okkar að tryggja að allir hafi framfæri.

Ég veit eiginlega ekki hvernig þetta var hugsað. Við vildum aukna menntun og fjölga vinnumarkaðsúrræðum en hér virðist hugsunin vera sú að ýta fólki yfir á sveitarfélögin. Á sama tíma kalla sveitarfélögin eftir því að fá að skilyrða fjárhagsaðstoð til fólks. Þetta er óhugnanleg þróun og lýsir fullkomnu skilningsleysi á aðstæðum fátækasta fólksins á Íslandi.