144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við í velferðarnefnd veittum umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar um málið þannig að endanleg niðurstaða kom ekki úr okkar nefnd, en í því sem þar kom fram skynjaði ég engan vilja til að breyta þessu.

Það kom jafnframt fram fyrir nefndinni að engin sérstök ástæða væri fyrir þessari breytingu, styttingu á atvinnuleysistryggingatímabilinu, önnur en leið til að finna sparnað í velferðarráðuneytinu. Þetta var bara til að fylla upp í hagræðingarkröfu og það er auðvitað alltaf erfitt þegar þess þarf en það má aldrei leita þeirrar hagræðingar hjá þeim sem allra minnst hafa.

Ég er á móti þessari aðgerð og það kom mjög skýrt fram hjá aðilum vinnumarkaðarins, náttúrlega verkalýðshreyfingunni fyrst og fremst, samtökum launafólks, að þetta væri í algerri andstöðu við það verklag sem viðhaft hefði verið um þessi mál. Við erum með lög um atvinnuleysistryggingar frá 2006 sem var endurskoðun á lögunum og mjög góð lög. Þeim var breytt eitthvað á síðustu árum en það hefur alltaf verið í samráði við verkalýðshreyfinguna. Þetta á ekki að gera á þennan hátt. Þetta eru tryggingar launafólks og það á að vinna breytingar á þeim, ef fólk vill gera það, í samráði við þá sem trygginganna njóta. Ég er alfarið á móti þessari hagræðingaraðgerð sem er þvert á venju í þessum málum.