144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er búinn að fá sendar upplýsingar um þá fjárþörf sem forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins telja að sé enn fyrir hendi til að hægt sé að veita nauðsynlega þjónustu. Þetta er umfram það sem fjármálaráðherra setti fram í fjárlagafrumvarpinu og það sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til að bæta skuli í heilbrigðiskerfið. Það sem meiri hlutinn lagði til var að koma 60% til móts við það sem Landspítalinn kallaði eftir sem var að í heildina þyrfti 1,8 milljarða. Nú hefur meiri hluti fjárlaganefndar lagt til að bæta skuli í um 1 milljarð kr. sem er um 60%.

Það er töluvert minna gefið þegar kemur að landsbyggðinni. Það eru sem sagt tveir spítalar, Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri, svo er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið. Þetta eru níu stofnanir í allt. Ef við tökum Landspítalann út fyrir sviga og horfum á aðra þætti þá vantar 2,3 milljarða upp á það sem kallað hefur verið eftir. Ef við tökum höfuðborgarsvæðið líka út fyrir sviga hvað þetta varðar og höfum bara landsbyggðina sér — á höfuðborgarsvæðinu eru þetta 250 milljónir þannig að út af standa rúmir 2 milljarðar sem vantar. Það sem vantar á Norðurlandi eru 330 milljónir og á Sjúkrahúsið á Akureyri vantar 55 milljónir. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það hljóti ekki að vera til peningar einhvers staðar til þess að (Forseti hringir.) setja í þessa málaflokka.