144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit hreinlega ekki hvort það gerir skattkerfið skilvirkara en þetta er það sem ríkisstjórnin segir og styður það með áliti frá m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þeir ganga alla vega út frá því og segja öðrum að þetta eigi að gera skattkerfið skilvirkara, breytingarnar á virðisaukaskattinum, með því að minnka bilið á milli skattþrepanna og að taka burtu undanþágur, fækka undanþágunum, það geri skattkerfið skilvirkara. Í ljósi þess hvað vantar mikið segja menn að ekki sé hægt að setja meira í heilbrigðiskerfið en þá situr samt sem áður enn eftir virðisaukaskattsundanþága á laxveiði, af öllum hlutum, þegar sá skattstofn er 2 milljarðar. Það væri skilvirkara í raun og veru að hafa ekki þessa undanþágu. Þetta er því alveg í hrópandi mótsögn við það sem ríkisstjórnin segir.

Í hverju felst þessi undanþága? Ég fór yfir það í máli mínu áðan. Mér sýnist þetta vera þannig að menn hafi klárlega viljað hafa þetta svona, ekki viljað skattleggja laxveiðina, og þeir hafa bara komist upp með það með því að túlka það einhvern veginn og einhvern veginn. Hvers vegna að túlka þetta sem fasteignaleigu, bíddu, er áin þá skyndilega orðin fasteign í á og við það að þú fórst að veiða í henni í tvo, þrjá daga þá er það orðið fasteignaleiga, þá ertu að leigja ána sem fasteign? Nei, þú ert að kaupa þér veiðileyfi. Með þeirri breytingu sem við erum að leggja til og munum leggja til líklega á morgun, ég er að safna þingmönnum á hana, þá verður þessi undanþága ekki til staðar.