144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höldum áfram að ræða fjárlög fyrir árið 2015. Ég ætla að reifa sameiginlegar breytingartillögur okkar í stjórnarandstöðunni við fjárlagafrumvarpið. Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar hafa sameinast um breytingartillögur við frumvarpið við 2. umr. og er það vel.

Vissulega er það þannig að stjórnvöld hverju sinni leggja fram stefnu sína í fjárlögum hvers árs og móta þannig ýmsa málaflokka og sýna hver hugur þeirra er til þeirra. Og þó að menn hafi vissulega úr mismiklum fjármunum að spila hverju sinni og fjárlögin beri þess merki er alltaf hægt að lesa út úr þeim stefnu viðkomandi stjórnvalda, hver forgangsröðunin er og hvar áherslur liggja, hvort sem menn þurfa að spara og hagræða eða nýta tekjur og fjármuni ríkisins til fjárfestinga til frambúðar og uppbyggingar innviða samfélagsins.

Stjórnarandstaða hverju sinni getur auðvitað ekki átt von á því að hún geti með breytingartillögum sínum gjörbylt því fjárlagafrumvarpi sem mikill meiri hluti leggur fram eins og nú er, ríkisstjórnin hefur vissulega mikinn meiri hluta í þinginu. En við teljum samt að það sé eðlilegt að við drögum saman áherslur okkar, það sem okkur þykir rétt og þar sem við höfum getað fundið samnefnara í að reyna að hafa áhrif á fjárlagavinnuna og koma með tillögur til breytinga. Ef hver og einn flokkur í stjórnarandstöðunni hefði dregið fram allar sínar óskir um breytingar yrði það ansi langur óskalisti og mundi kannski frekar missa marks en hitt, svo að við töldum rétt að gera þetta svona og draga ákveðin mál fram. En vissulega hefðum við viljað sjá fjölmörgum öðrum fjárlagaliðum breytt, bæði stórum sem smáum.

Fyrst ber að nefna velferðarmálin og mikla kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu. Hún er orðin mjög mikil og mikið áhyggjuefni þar sem komið hefur í ljós að allt of margir veigra sér við að leita heilbrigðisþjónustu, þeir sem eru tekjuminni og ráða hreinlega ekki við að auka útgjöld sín meira og fresta því að nýta sér heilbrigðisþjónustu. Við viljum leggja það til hvað varðar þennan málaflokk að greiðslur almennings fyrir heilbrigðisþjónustu verði óbreyttar, þ.e. leggjum til að þær hækkanir sem blasa við upp á 1,9 milljarða verði dregnar til baka. Það munar um minna fyrir þá efnaminni.

Við viljum enn fremur sjá öfluga sókn í velferðarmálum og aukin framlög til viðhalds á byggingum Landspítalans og til að vinna á biðlistum og einnig framlag til BUGL og aukin framlög til lífeyrisþega. Verkfall lækna hefur staðið mjög lengi, ég er ekki viss um hvort það sé mánuður eða hvað og langvarandi verkfallsaðgerðir hafa mikil áhrif á biðlista í kerfinu og þar af leiðandi, má segja, á heilsu fólks sem bíður eftir að komast í aðgerðir og er veikt fyrir og er á biðlistum. Biðlistarnir ýtast áfram og þetta eykur veikindi og þjáningar margra sem eru á þeim listum. Enginn gerir þetta að gamni sínu, læknar eru í verkfallsaðgerðum af fullri alvöru og þeir hafa ekki beitt verkfallsvopninu með slíkum hætti áður. Það sýnir alvöru málsins. Ég held að við þurfum að taka það alvarlega og þótt Alþingi sé ekki beinn samningsaðili þá kemur þetta auðvitað inn á okkar borð, því að það er svo margt sem spilar þarna inn í varðandi uppbyggingu Landspítalans sem við höfum rætt mikið á þingi, bæði viðhald og nýbyggingu. Í breytingartillögum meiri hlutans eru vissulega settir inn fjármunir í hönnun og í viðhald en því miður dugar það ekki eitt til. Uppsafnaður vandi spítalans er orðinn svo mikill að forgangsraða þarf enn betur í þágu málaflokksins og ekki henda frá sér tekjustofnum eins og ríkisstjórnin hefur gert og er mjög dapurt í þessu samhengi.

Við leggjum mikla áherslu á mennta- og menningarmálin. Við viljum að framhaldsskólinn sé opinn fyrir alla og aðgangur fólks yfir 25 ára aldri að framhaldsskólunum verði ekki heftur og sú aldurstakmörkun verði dregin til baka. Eftir því sem maður hugsar meira um þá ákvörðun finnst manni hún vera ein arfavitlausasta ákvörðun í þessu samhengi hver framtíðarsýn þjóðfélags okkar er, hve miklu máli skiptir að menntun sé ekki bundin við efnahag, landsvæði eða aðstæður. Ýmislegt getur komið upp á í lífi fólks sem veldur því að það heldur ekki áfram á beinu brautinni svokölluðu en hefur áhuga á að komast aftur inn á hana eða afla sér menntunar við hæfi, þroska sjálft sig og skapa sér atvinnutækifæri. Það á ekki að hamla því og spara í því samhengi að hafa greitt aðgengi fólks sem vill snúa sér aftur að námi þó að það sé orðið 25 ára. Þetta er grafalvarlegt vegna þess að sá hópur sem þarna um ræðir er oftar en ekki fólk sem er ekki efnamikið og vill koma aftur til náms, vill vera í heimabyggð. Það hefur þá ekki þann möguleika sem það hefur í dag að geta sest á skólabekk í framhaldsskóla á sínu landsvæði og aflað sér menntunar, sem styrkir þjóðfélagið sem slíkt í heildina og veitir viðkomandi meira sjálfsöryggi og möguleika á að fá vinnu við hæfi. Það er mjög sorglegt að menn skuli ákveða að fara þessa leið til að spara. Sá sparnaður mun kosta samfélag okkar á endanum meira en það sem menn spara þarna í einhverjum krónum.

Við leggjum áherslu á að sátt náist um Ríkisútvarpið og íslenska menningu og að útvarpsgjaldið verði óbreytt og renni óskert til Ríkisútvarpsins. Stjórn Ríkisútvarpsins hefur komið á framfæri ályktun og áskorun til okkar þingmanna um að marka stefnu fyrir Ríkisútvarpið og hvað við viljum með þessum fjölmiðli sem er í eigu okkar allra og hefur fylgt okkur frá 1930. Ríkisútvarpið er stór menningarstofnun og svolítið eins og hjartað í þjóðfélaginu. Það hefur treyst lýðræðislega umræðu, öflugan fréttaflutning og almannaþjónustu, er öryggisventill fyrir almannavarnir í landinu, landi okkar þar sem allt getur gerst. Þegar menn halda áfram að grafa undan slíkri stofnun hlýtur eitthvað að bresta. Við erum komin á þann stað núna að það eru komnir alvarlegir brestir sem stofnunin þolir ekki. Þess vegna kallar öll stjórn útvarpsins, sama hvar í flokki menn þar eru, á að við þingmenn gefum það út hvað við ætlum okkur með stofnunina. Á að gjörbreyta hlutverki Ríkisútvarpsins og skera niður og hvar á að skera niður? Það er ekki hægt að lækka útvarpsgjaldið, fyrst niður í 17.800 kr. og síðan niður í rúmar 16 þús. kr. á næstu tveim árum, sem þýðir tekjutap upp á fleiri hundruð milljónir, og halda að ekkert breytist. Ég skil það þannig að hollvinasamtökin hafi ákveðið að boða til mótmæla og kalla á samstöðu um að standa vörð um Ríkisútvarpið og þá stofnun. Ég vona að menn taki vel í þá áskorun og fjölmenni og standi vörð um þessa stofnun okkar sem hefur auðgað andann og fylgt okkur í öll þessi ár. Það mun ekki verða einhver fjölmiðill á hinum frjálsa markaði sem stekkur sisvona inn í það hlutverk, við skulum ekki láta okkur dreyma um það.

Við leggjum til að háskólarnir fái úrlausn og opinberir háskólar fái stuðning til að efla samstarf og samvinnu, og Listaháskólinn fái húsnæðisframlag. Það er ekki síður mikilvægt að gleyma ekki þessum stoðum í samfélaginu sem er menntun okkar upp að háskólastigi, heilbrigðisþjónustan og fleira sem ég hef nefnt, eins og Ríkisútvarpið.

Síðan viljum við standa vörð um réttindi á vinnumarkaði. Nú eru opnir kjarasamningar á almenna markaðnum. Við leggjum mikla áherslu á að fallið verði frá styttingu bótatímabils atvinnuleitenda úr þremur árum í tvö og hálft ár og aukið fé verði veitt í þjónustu við atvinnuleitendur. Ríkið greiði áfram umsamin framlög til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða. Þetta eru mál sem skipta gífurlegu máli og hafa mikið vægi í komandi kjarasamningum. Ríkisvaldið hefur ekki haft neitt samráð við aðila vinnumarkaðarins um þau mál og rýfur samkomulag frá árinu 2005 sem gert var milli aðila vinnumarkaðarins um greiðslur til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða. Það er grafalvarlegt að stytta atvinnubótatímabilið úr þremur árum í tvö og hálft og taka 600–700 manns um næstu áramót af atvinnuleysisbótum og láta þann hóp falla þá undir ábyrgð sveitarfélaga, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Við megum ekki vera svo ábyrgðarlaus að halda að þetta reddist einhvern veginn. Þetta er hópur sem á félagslega mjög erfitt eftir svona langt atvinnuleysi og samhliða því að verið er að skerða vinnumarkaðsaðgerðir er ekkert öryggisnet til staðar fyrir þetta fólk. Hvað með til dæmis aðgengi að framhaldsskólum, eins og ég nefndi áðan? Þetta fólk hefur þá ekki möguleika til þess, þeir sem eru 25 ára og eldri, að fara í bóknám í framhaldsskólum til að styrkja stöðu sína. Og ekki hefur það efni á að fara í dýra einkaskóla, sem manni virðist ríkisvaldið eða menntamálaráðherra vera að beina þeim hópi, 25 ára og eldri, inn í.

Við leggjum mikla áherslu á uppbyggingu innviða samfélagsins, stóraukin framlög í sóknaráætlun, nýframkvæmdir í vegamálum, hafnamálum, í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og að framlög verði veitt á ný í græna hagkerfið. Allt eru þetta málaflokkar sem núverandi ríkisstjórn hefur slufsast í gegnum og dregið lappirnar í. Miðað við hvernig hún talaði á síðasta kjörtímabili þegar menn voru í björgunarleiðangri fyrir samfélag okkar til að allir innviðir hryndu ekki og voru í varnarbaráttu við að halda hjólum þjóðfélagsins gangandi, mætti ætla að núna þegar betur árar og tekjur eru að aukast hjá ríkinu og menn henda frá sér hátt í 50 milljörðum ef allt er talið til í tekjumöguleikum og tekjustofnum, væri borð fyrir báru til að auka nýframkvæmdir í vegamálum og hafnamálum og ég tala nú ekki um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Gífurlegur fjöldi ferðamanna kemur til landsins á ári hverju og við horfum upp á mikla aukningu á ári hverju. Við vitum ekki hvenær náttúra landsins hættir hreinlega að geta tekið á móti þessum fjölda ef hún fær enga uppbyggingu innviða eða umhirðu og þetta er allt í lausu lofti og menn leggja ekki til neina peninga að ráði, en til málamynda eru lagðar til 145 milljónir. Menn tala núna um ferðamannapassa, náttúrupassa, sem er algjörlega óútfærður og hefur strax valdið gífurlegum deilum milli aðila. Ferðamálasamtökin styðja hann ekki, telja að hann muni hafa neikvæð áhrif á ímynd landsins og náttúruna og hefti för almennings um landið, svo þetta veit ekki á gott.

Sóknaráætlun var það verkfæri sem sveitarfélög og landshlutasamtök höfðu til þess að efla sín svæði, með framlögum til uppbyggingar innviða samfélaganna og að ríkið færði fé yfir til landshlutasamtakanna sem ráðstöfuðu þeim framlögum með þeim hætti sem þeir kunna best sem eru í návígi við það sem þarf að byggja og bæta og lagfæra. Sóknaráætlun fær núna aðeins 100 milljónir. Það var aukið í á milli 1. og 2. umr., framlagið var fyrst 15 milljónir og er núna í allt 100 milljónir. Það er líka talað um að gera miklar breytingar á vaxtarsamningum og menningarsamningum og sóknaráætlun og steypa þessu öllu í eitt. En fjármunir munu ekki koma til viðbótar. Við leggjum áherslu á að stórauka framlög til þessara málaflokka því við þurfum virkilega á því að halda að fá fjármagn til að styrkja samgöngur í landinu, t.d. tökum við við svo miklum fjölda ferðamanna sem keyrir um landið og ferðast um og við þurfum að hafa þessi mál í lagi.

Hér í lokin vil ég nefna að við leggjum áherslu á ýmis réttlætis- og mannréttindamál og gerum tillögu um framlag til ríkissaksóknara og lögreglu vegna þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis og aukið framlag til Útlendingastofnunar til að vinna á biðlistum. Allt eru þetta mál sem við viljum leggja meiri fjármuni í og forgangsraða til. Á móti auknum útgjöldum er gert ráð fyrir auknum tekjum vegna hækkunar veiðigjalds, (Forseti hringir.) efldra skattrannsóknir og fá í framhaldinu skattfé inn í landið sem hefur farið út úr landinu eftir óeðlilegum leiðum.