144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Vissulega er mér mikið áhyggjuefni að hefta eigi aðgengi 25 ára og eldri að bóknámi í framhaldsskólum. Ég held að það komi sérstaklega illa við framhaldsskóla úti á landi, eins og ég hef komið inn á. Það bitnar á dreifnámi og framhaldsdeildum sem fá ekki þann stuðning sem þarf til núna í breytingartillögum við 2. umr. hjá meiri hluta fjárlaganefndar. Það eru settir einhverjir fjármunir í framhaldsskólana til að tryggja ákveðið gólf þar en það vantar mikið upp á.

Þetta er mjög fjandsamleg byggðaaðgerð, tel ég. Með þessu er verið að draga úr námsframboði. Í kjölfarið þegar þessir skólar missa 25 ára nemendur og eldri úr námi þá segir það sig sjálft að umsýsla skólanna verður minni, minna fjármagn og minna námsframboð. Hvert á þetta fólk að fara? Er verið að hvetja til þess að það fari burt frá sinni heimabyggð og hafi ekki möguleika á að vera þar í námi, jafnvel meðfram vinnu, og vera áfram þar sem það vill vera? Hefur þetta fólk efni á því að sækja þessa dýru skóla eða hættir það alfarið við að afla sér þeirrar menntunar sem það hefur tekið ákvörðun um að gera eftir 25 ára aldur? Það hlýtur að vera mikið ánægjuefni fyrir samfélagið allt þegar fólk aflar sér aukinnar menntunar til þess að vera öflugt í atvinnulífi og hafa fleiri möguleika á að fá sér vinnu og vera virkara í lífi sínu en annars. Þetta er (Forseti hringir.) mjög andbyggðarlegt tel ég vera.