144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að inna hv. þingmenn eftir skoðunum hans á tveimur málum til viðbótar. Það er annars vegar hvað varðar fjármagn til að gera svokallað áhættumat á Íslandi sem ferðamannastað. Ég veit að hv. þingmaður hefur að minnsta kosti í tvígang flutt frumvarp eða þingsályktunartillögu þessa efnis þar sem lagt er til að farið verði í vinnu af því tagi. Og ég held að ekki sé vanþörf á, enda hef ég verið stuðningsmaður og meðflutningsmaður á þessum málum. Þekkir hv. þingmaður til þess að verið sé að setja eitthvert fjármagn samkvæmt fjárlagafrumvarpinu í þennan málaflokk? Þetta er eitt af því sem ég mundi vilja fá að heyra frá hv. þingmanni.

Hitt varðar áhrifin af þeim fyrirsjáanlega niðurskurði sem blasir við Ríkisútvarpinu með lækkun útvarpsgjaldsins. Þrátt fyrir að það sé látið renna óskipt til stofnunarinnar horfir stofnunin framan í niðurskurð upp á 600–900 milljónir. Hvar telur hv. þingmaður að sá niðurskurður muni birtast, sérstaklega ef haft er í huga að ekki er verið að gera breytingar á skilgreindu hlutverki Ríkisútvarpsins? Því miður virðist það blasa við, að mínu mati, að ráðist verði í niðurskurð í þjónustu á landsbyggðinni, eins og alltaf hefur verið gert þegar menn fara með hnífinn á þessa stofnun. Þar sjá stjórnendur fyrir sér að mögulegt sé að halda uppi lágmarksþjónustu með því að senda til dæmis fréttamenn eða þáttagerðarfólk, gera það út af örkinni tímabundið, frekar en að vera með starfsstöðvar, en geta síðan sinnt hinu lögbundna hlutverki með því að hafa höfuðstöðvar sínar hér á höfuðborgarsvæðinu.