144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er sannarlega mín tilfinning að fólk vilji hafa hér öflugt ríkisútvarp og fólk sé tilbúið að borga aukalega. Þetta eru þá rúmar 1 þús. kr. sem 18 ára og eldri þyrftu að greiða hærra gjald til að Ríkisútvarpið fengi þær tekjur sem það telur sig þurfa og telur sig þá geta haldið uppi þeirri starfsemi sem lög kveða á um.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin sé með það á heilanum að lækka skatta. Ég er ekki að segja að ég sé eitthvað sérstaklega mikið fyrir háa skatta en ég vil að það sé séð til þess að sameiginlegir sjóðir geti staðið undir þeirri þjónustu sem við viljum veita. Þetta er nefskattur þannig að það er ekki eins og það þurfi að breyta einhverjum tekjuskatti, virðisaukaskatti eða öðru slíku út af þessu, það er spurning um á annað þúsund krónur á mann á ári og hefur að öðru leyti engin áhrif á sjóðstreymi eða neitt svoleiðis í fjárlögunum.

Mér finnst þetta mjög skrýtin aðgerð en svo virðist sem einhver lítill hluti þjóðarinnar láti Ríkisútvarpið fara alveg gífurlega í taugarnar á sér og það fólk ræður núna.