144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hreyfir hér máli sem ég hef tekið upp. Ég hef bent á það, sem ég held að sé bara staðreynd, að það mundi greiða fyrir lokum þessarar umræðu ef hér væru til svara, þegar bornar eru fram beinar spurningar, forustumenn fjárlaganefndar, sem gengur nú í salinn, hv. formaður fjárlaganefndar, og það er vel. En ég tel líka að lykilráðherrar sem eiga mjög umdeild eða stór mál undir, að sjálfsögðu fjármála- og efnahagsráðherra og til dæmis hæstv. menntamálaráðherra vegna Ríkisútvarpsins, ættu að sjá sóma sinn í að koma aðeins til umræðunnar áður en henni lýkur. Það væri þá hægt að beina til þeirra spurningum. Þeir þingmenn sem ættu eftir einhvern rétt til umræðu gætu þá gert það þannig að til dæmis menntamálaráðherra svaraði fyrir um Ríkisútvarpið og afgreiðsluna á því.

Ég hef ítrekað spurt, í tveimur ræðum, hæstv. fjármálaráðherra um framtíðina varðandi Bankasýslu ríkisins og ég vil fá svör áður en fjárlögin lokast um málefni af því tagi. Og ég á rétt á þeim, herra forseti, ég á heimtingu á því sem alþingismaður að mér sé svarað.