144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með samstarfsfólki mínu sem hefur talað um þessi mál. Ég minnist þess að þegar síðasta ríkisstjórn sat við völd voru ráðherrar ræstir út á næturnar ef svo bar undir og hér var viðhafður mikill hávaði og læti sem ég er nokkuð viss um að hv. núverandi formaður fjárlaganefndar kannast alveg við. Þá voru gerðar kröfur um viðveru.

Það er virðingarvert að bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa verið við umræðuna, ég ætla ekki að gera lítið úr því, og sérstaklega varaformaðurinn hefur verið duglegur að koma í andsvör. Hins vegar hafa verið beinar spurningar hjá ansi mörgum þingmönnum um ákveðin mál sem hvorugt þeirra né ráðherrar hafa getað svarað. Það er kannski frekar á færi ráðherra að svara sumu því að eins og við sjáum ítrekað verða hér afdrifaríkar stefnubreytingar í veigamiklum málaflokkum eins og hér hefur verið rakið, m.a. í menntamálum (Forseti hringir.) og gagnvart RÚV. Það er eðlilegt að hér sé ráðherra annað slagið, hvort sem það er fjármálaráðherra sem fylgir þessu úr hlaði eða mennta- og menningarmálaráðherra.