144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að ræða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015. Hér hefur mikil og góð umræða átt sér stað í dag og síðustu daga um alveg gríðarlega mikilvæg mál sem snerta íslenskt samfélag á allan hátt, því að segja má að fjárlög hverrar hæstv. ríkisstjórnar séu uppskriftin að því hvernig hún ætlar að reka samfélagið næsta árið. Líkt og hv. þingmenn hafa sagt í bæði umræðum um fjárlagafrumvarpið sjálft og í umræðum um stjórn forseta er verið að boða mjög stefnumótandi og stórar tillögur um það hvernig íslenskt samfélag á að vera, og þar er ýmislegt sem mun leiða til breytingar á samfélaginu eins og það er í dag.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í fyrstu ræðu minni í 2. umr. um fjárlögin að ég tel þetta í grundvallaratriðum slæmt frumvarp, einfaldlega vegna þess að ég tel að hér sé vitlaust gefið. Það er annars vegar verið að veikja tekjustofna ríkisins, það er verið að draga úr samneyslunni og með frumvarpinu er lagt til að byrðum verði velt á almenning. Þetta er að mínu mati kolröng forgangsröðun og á sama tíma er þetta stórmál sem ég tel að við þurfum að ræða í þaula, þess vegna er það svo dapurlegt hversu lítil umræða hefur í raun átt sér stað. Minni hlutinn hefur talað alveg helling og einmitt ítrekað þær breytingar sem er verið að boða, en hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa hins vegar sést mun minna, nema þá í einstaka andsvari og í einstaka ræðum, á meðan ég kysi helst að hafa þetta þannig að við værum að ræða grundvallaratriðin í því hvernig við ætlum að reka íslenskt samfélag.

Þetta tengist því hvernig við viljum rækja hið lýðræðislega stjórnarfyrirkomulag. Viljum við hafa alvöruumræðu þar sem við skiptumst á skoðunum? Við rökræðum, við getum verið ósammála, það er allt í lagi, en það þarf þá líka að vera uppi á yfirborðinu. Eða ætlum við að láta minni hlutann tala sig hásan en hlusta ekkert á það og láta svo meirihlutavaldið ráða þegar kemur að því að taka hinar raunverulegu ákvarðanir?

Þetta finnst mér satt að segja mjög undarleg vinnubrögð. Ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því að þessu væri svona háttað, barnalegt sem það kannski er, ég veit það ekki. Trú mín á lýðræðið er það mikil og það sterk. Ég verð að ítreka að svona vil ég að þetta sé og ég ætla að reyna að koma því þannig fyrir að það verði svona.

Líkt og ég sagði áðan tel ég að þetta fjárlagafrumvarp boði veikingu á velferðarsamfélaginu okkar og ég hef áhyggjur af því að nú fari að draga enn meira í sundur með þeim sem annars vegar hafa það ágætt í samfélagi okkar og komast jafnvel nokkuð vel af og geta lifað mjög góðu lífi, og hins vegar þeirra sem búa við fátækt og hafa þar með ekki sömu tækifæri til að taka þátt í samfélaginu. Gildir þá í raun einu hvort það er vegna hækkunar á matarskatti, sem sýnt hefur verið að mun hafa meiri áhrif á þá sem hafa lágar tekjur og má leiða að því líkur að þeir geti leyft sér minna í mat og gæði matar, eða hækkunar á virðisaukaskatti á bókum og menningu, sem gerir það aftur að verkum að þeir sem hafa litlar ráðstöfunartekjur geta ekki leyft sér þann „munað“ — og nú segi ég munað innan gæsalappa — að taka þátt í menningarlífi. Mér finnst alveg óskaplega dapurlegt að sjá fram á að þetta verði þróunin fyrir íslenskt samfélag.

Í dag kom út ný skýrsla OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, þar sem kom fram að ójöfnuður dregur beinlínis úr hagvexti þjóða, m.a. vegna þess að hann takmarkar aðgengi fólks að menntun og þar með verðmætasköpun. Einnig er bent á í þessari skýrslu að samkvæmt greiningu OECD hafa aðgerðir sem stuðla að tekjujöfnuði ekki slæm áhrif á hagvöxt. Þessi skýrsla finnst mér koma beint inn í þá umræðu sem við eigum þessa dagana um fjárlögin, því að eins og ég hef margoft sagt er ég hrædd um að þau stefni í þá átt að auka ójöfnuðinn í samfélaginu. Það er ekki aðeins þessi einstaka skýrsla OECD sem má nota sem rök í málinu heldur hafa rannsóknir hreinlega sýnt að of mikill niðurskurður á samfélagslegum innviðum getur dýpkað og framlengt efnahagskreppur.

Eftir því sem umræðunni vindur fram kemst ég meira og meira á þá skoðun að við á Íslandi séum ekki komin út úr efnahagskreppunni. Við erum komin út úr því versta. Það eru ýmis teikn um það að efnahagslífið sé að rétta úr kútnum en við erum að mínu mati enn þá á mjög viðkvæmu stigi þar sem hreinlega getur skilið á milli feigs og ófeigs um það hvernig til tekst með framhaldið. Þess vegna tel ég að einmitt á þessum tímapunkti, þegar svigrúmið í ríkisfjármálunum er aðeins að aukast, skipti svo miklu máli hvernig við ætlum að ráðstafa peningunum.

Það má benda á að í þeim löndum þar sem þjóðir skáru mjög mikið niður í velferðarkerfinu í kjölfar efnahagskreppu varð kreppan í kjölfarið lengri. Mér finnst þetta vera fordæmi og víti sem við eigum að varast. Við eigum að taka þetta til skoðunar og fara þá í gagnstæða átt og jafnvel horfa til þjóða sem hafa farið akkúrat hina leiðina, þ.e. að styrkja velferðarkerfið. Það má kannski segja að þetta hafi verið, eða það má ekkert kannski segja það, það var þetta sem fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn gerði af þeim burðum sem hún gat miðað við stöðuna þá. Nú þarf hæstv. núverandi ríkisstjórn að halda áfram á sömu braut fyrir samfélagið okkar.

Nú við þessa 2. umr. liggja fyrir breytingartillögur frá minni hluta hv. fjárlaganefndar og þær bera það með sér að þar sé verið að reyna að lappa upp á, taka verstu agnúana af fjárlagafrumvarpinu. Það er kannski ekki hægt að breyta með svona breytingartillögum stóru myndinni sem fjárlagafrumvarpið boðar en það er hins vegar hægt að gera ýmislegt til þess að laga það svo langt sem það nær. Ég vil taka það fram að ég styð heils hugar þessar breytingartillögur minni hlutans og mig langar að gera nokkra liði úr breytingartillögunum að sérstöku umræðuefni.

Vil ég þar fyrst nefna breytingar sem lúta að því fjármagni sem veita á til Ríkisútvarpsins. Þar er gerð tillaga um að Ríkisútvarpið fái allt útvarpsgjaldið óskert og að það verði jafnframt hækkað og fallið frá þeim tillögum að útvarpsgjald verði lækkað í áföngum á næstu árum. Þetta tel ég vera alveg gríðarlega mikilvægt, að við stöndum vörð um Ríkisútvarpið til þess að standa vörð um hina lýðræðislegu umræðu í samfélaginu. Þar tel ég Ríkisútvarpið vera í ákveðinni lykilstöðu og þess vegna sé svo mikilvægt að við gerum ekkert til þess að veikja þetta almannaútvarp, því að umræðuhefðin okkar, hin pólitíska umræða á Íslandi er veik nú þegar og ég er hrædd um að þetta verði til þess fallið að veikja hana enn frekar.

Annað mál sem ég vil draga út og leggja sérstaka áherslu á í breytingartillögum minni hluta hv. fjárlaganefndar eru útgjöldin til Landspítalans þar sem bæta á allverulega í Landspítalann og þá bæði rekstrarframlag til hans, að það verði hækkað, og að 200 milljónum verði varið í það að minnka biðlista vegna verkfallsins sem nú er í fullum gangi og því miður, samkvæmt því sem ég vissi fyrr í dag, er ekki búið að boða til nýs fundar með læknum í kjaradeilunni. Það vekur manni óneitanlega ugg. Hér er verið í krónum talið að hækka framlög til Landspítalans en það er svo greinilegt að þrátt fyrir að vera umtalsverðir fjármunir er þetta ekki nóg. Engu að síður kemur fram í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar að mikilvægt sé að líta á fjárlögin í heild og forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar. Þar hefði ég talið að heilbrigðiskerfið sé undir.

Vegna þess að það á ekki að setja meiri peninga í þetta læðist að manni sú spurning hvort það eigi að veikja heilbrigðiskerfið svo að það verði auðveldara að koma því á sem kallað er fjölbreytni í rekstri eða einkarekstur, vegna þess að við verðum hreinlega með svo brogað heilbrigðiskerfi hérna að það verður auðvelt að selja þá hugmynd að hvaða rekstrarform sem er, hvort sem það er ríkisrekstur eða þannig að sjúklingar þurfi sjálfir að greiða meira fyrir, sé skárra en það sem við höfum núna. Þetta var smá útúrdúr við breytingartillögur minni hluta hv. fjárlaganefndar sem ég var að tala um, en þar er gert ráð fyrir því að bæta meiri peningum í Landspítalann til þess að létta eða draga úr álögum sem lagðar verða á almenning í tengslum við heilbrigðiskerfið. Þetta er alveg risamál að mínu mati.

Að síðustu langar mig að fara nokkrum orðum um breytingar sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu á Atvinnuleysistryggingasjóði þar sem lagt er til að bótatímabilið eða réttur fólks til atvinnuleysisbóta verði styttur úr þremur árum í tvö og hálft ár. Ég verð að segja að mér finnst vinnubrögðin hér alveg ótrúlega skrýtin. Við erum um miðjan desember að ræða tillögur sem taka eiga gildi eftir hálfan mánuð og skipta alveg gríðarlegu máli fyrir afkomu atvinnuleitenda sem missa með mjög skömmum fyrirvara réttindi sín og þurfa þá að fara að fóta sig í nýju kerfi, sem er fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Eins og við vitum öll eru mun lægri upphæðir sem fólk hefur sér til framfærslu þar. Mér finnst þetta skrýtið og spyr: Væri ekki eðlilegt að hafa sólarlagsákvæði eða einhvers konar aðlögunartíma? Mér finnst þetta bera gríðarlega brátt að, að svona lög taki gildi nokkrum dögum eftir að þau eru samþykkt á Alþingi.

Hæstv. forseti. Eins og ég segi hef ég áhyggjur af því hvert þetta fjárlagafrumvarp er að fara að leiða okkur og samfélagið okkar. Ég vona svo sannarlega að nú á milli 2. og 3. umr. verði málið tekið til gagngerrar skoðunar í hv. fjárlaganefnd. Ég ætla ekki að missa trúna fyrr en ég sé að hér verði gerðar breytingar og að hv. fjárlaganefnd taki mark á nýrri skýrslu OECD sem sýnir að ójöfnuður dregur úr hagvexti fyrir samfélagið og er þannig slæmur fyrir heildina. Ójöfnuðurinn er ekki einungis slæmur fyrir þá sem eru á lágu tekjunum og finna fyrir honum á eigin skinni heldur er ójöfnuðurinn vondur fyrir okkur sem samfélag í heild. Ég beini því hér með til hv. fjárlaganefndar að hún taki þessa skýrslu til skoðunar og endurskoði fjárlagafrumvarpið með tilliti til hennar.