144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur út í S-merktu lyfin. Nú er það þannig að eitt af aðhaldsmarkmiðum í fjárlagafrumvarpinu til að ná heildarjöfnuði er að setja inn greiðsluþátttöku sjúklinga í S-merktum lyfjum af þeim lyfjum sem gefin eru utan heilbrigðisstofnana.

Ég og hv. þingmaður sitjum saman í velferðarnefnd og fyrir okkur er það engan veginn ljóst, og hefur ekki verið útskýrt með fullnægjandi hætti, hvernig á að flokka hverjir mundu eiga að taka þátt í greiðslu á sínum lyfjum og hverjir ekki, og það er mikið áhyggjuefni.

Þar að auki hefur verið sagt að það hafi alltaf verið ætlunin að gera þetta. Ég ætla að nota tækifærið hér og mótmæla því. Það kann vel að vera að þetta hafi einhvern tíma verið á umræðustigi en aldrei á meðan ég tók þátt í umræðu um þessi mál var rætt um það. Þvert á móti átti að auka greiðsluþátttökuna og setja til dæmis sýklalyf fyrir fullorðna þar undir og síðan að miða að því að lækka þakið í greiðsluþátttökunni. Nú er hins vegar verið að boða hækkun á því.

Svo eru það líka tæknilegir annmarkar. Eitt eru sanngirnismálin, að þeir sem eru svo veikir að þeir þurfi S-merkt lyf eigi að taka þátt í þeim lyfjakostnaði sérstaklega, en hitt eru tæknilegu skavankarnir sem á þessu máli eru. Okkur var bent á fyrir nefndinni að það er beinlínis óhagkvæmt fyrir ríkið að gera þetta því að það hefur áhrif á kaupverð lyfjanna ef ríkið getur ekki boðið þau út með sama hætti og áður. Ég vil heyra í hv. þingmanni, hvort hún hafi ekki áhyggjur af því hvaða áhrif það muni hafa á sjúklinga (Forseti hringir.) að þurfa að taka þátt í kostnaði vegna þessara lyfja.