144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi yfir áhyggjum af því hversu flausturslega þessar tillögur voru unnar varðandi sparnað í lyfjakostnaði. Annars vegar átti að hækka greiðsluþakið. Svo var ákveðið að hætta við það. Þá átti að ná sparnaðinum fram með auknu lyfjaeftirliti, en þar greinir velferðarráðuneytið á við landlæknisembættið um hvort lagaheimildir séu til staðar.

Það ákveðna vandamál var leyst með því að hætt var við þá aðhaldsaðgerð og það útskýrt sem mótvægi við hækkun matarskatts, en það er ekkert mótvægi því að það er bara verið að hætta við aukin gjöld en ekki verið að lækka þau.

Varðandi S-merktu lyfin þá kom mér á óvart að ráðuneytið eða stjórn lyfjamála í landinu virtist ekki átta sig á að þetta kallaði á meiri háttar kerfisbreytingu, þessar 145 milljónir, (Forseti hringir.) með ófyrirséðum kostnaði fyrir ríkið. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að svo léleg yfirsýn sé yfir lyfjamálin hjá stjórnvöldum?