144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu þingmannsins. Það vill nú svo til að hún tilheyrir flokki sem sat í síðustu ríkisstjórn í fjögur ár, þó ekki í þeim flokki sem sat í sex ár og ber nú ansi mikla ábyrgð á því hvernig landið var endurreist á síðasta kjörtímabili. Auk þess sat Samfylkingin náttúrlega í hinni svokölluðu hrunríkisstjórn þó að þingmenn þar vilji lítið kannast við það.

Á síðasta kjörtímabili var farið í stórfelldan niðurskurð á heilbrigðiskerfinu. Ekki einungis var Landspítalinn skorinn niður um rúm 20%, heldur má segja að heilbrigðisþjónustan hafi verið tekin niður í heilu lagi á landsbyggðinni. Það er nú bara staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.

Þessi ríkisstjórn hefur bætt við milljörðum í heilbrigðiskerfið, milljörðum í Landspítala og sem dæmi bætti meiri hluti fjárlaganefndar við 400 millj. kr. á milli umræðna í fyrra í heilbrigðisstofnanir úti á landi. Hæstv. heilbrigðisráðherra tók tillit til þeirra breytinga við samningu þessa frumvarps og setti þær óskertar inn ásamt öllum þeim hundruðum milljóna sem ríkisstjórnin hefur sett inn í heilbrigðiskerfið.

Það kemur mér því spánskt fyrir sjónir að hv. þingmaður gagnrýni mjög niðurskurð í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég óska eftir því að hv. þingmaður útskýri hvað átt er við með því, því að fram kom í orðum hennar að hún væri svo óttaslegin vegna þess að verið væri að þrengja svo að heilbrigðiskerfinu til að þessi ríkisstjórn gæti skapað sér svigrúm til þess að fara í stórfellda einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Virðulegi forseti. Ég fer fram á að það verði útskýrt aðeins betur hér.