144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur formanni fjárlaganefndar fyrir andsvarið.

Ég held að hv. þingmaður hafi komist nokkuð vel að orði þegar hún sagði í ræðu sinni: Landið var endurreist. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er búin að gleyma því að hér varð hrun, (VigH: Nau?) hér varð meiri háttar efnahagshrun. Það er gott að hv. þingmaður kinkar kolli. Skorið var niður á öllum sviðum. Ég held að ég geti alveg sagt það þó svo að ég hafi hvorki tilheyrt hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn né setið á þingi þá að það var engum létt í geði þegar farið var í niðurskurð á velferðarkerfinu, niðurskurð sem var nauðsynlegur í ljósi ástandsins í ríkisfjármálunum. En líkt og hv. þingmaður sagði var landið endurreist. Við lok kjörtímabilsins var aftur byrjað að bæta í velferðarkerfið og styrkja það.

Líkt og ég sagði í ræðu minni áðan tel ég að nú sé tíminn þar sem við eigum að halda áfram á þeirri braut og setja kraftana í heilbrigðiskerfið okkar.

Ég sagði einnig að það væri vissulega rétt að í krónum talið væri verið að auka fjármagnið sem veitt er í heilbrigðiskerfið, en því miður er það ekki nóg, það þarf meira. Það er það sem við eigum að vera að gera núna þegar við erum komin á skrið, efnahagslífið er að taka við sér. En það er því miður svo að læknaverkfallið sem nú hefur staðið í þó nokkuð margar vikur og enginn skriður virðist vera í, gefur hreinlega ekki góðar vísbendingar um að hugur fylgi máli þegar hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) og meiri hluti þingsins tala um (Forseti hringir.) að þau (Forseti hringir.) vilji gera allt til þess að bæta í heilbrigðiskerfið.