144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir ákaflega góða ræðu eins og hans er von og vísa þegar verið er að fjalla um þennan málaflokk. Hv. þm. Ögmundur Jónasson þekkir þennan málaflokk mjög vel.

Mig langar að spyrja þingmanninn hver hans áralanga reynsla sé af því að fylgjast með til dæmis breytingum á skattstofnum sem ættu tæknilega séð að leiða til verðlækkana, hvort það skili sér í raun og veru. Nú hef ég verið að fylgjast með og krónan hefur verið að styrkjast. Það hefur ekki skilað sér inn í verðlag á matvælum. Olían hefur hríðlækkað í verði og við erum eitt af síðustu löndum í heiminum til að sjá það í verðlagi hérlendis. Stundum er fákeppnin svo gríðarlega mikil hérna að þótt það eigi að vera einhvers konar samkeppni skilar hún sér aldrei til neytenda. Það er hugsunarvilla að í raun sé mögulegt að keyra kerfið okkar á þeirri hugmyndafræði að það skili sér til almennings.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann geti gefið mér dæmi um að svona verðlækkanir skili sér til almennings eða hvort það sé akkúrat öfugt, að þær, eins og hækkanir á skatti, skili sér frekar í hækkun á verðlagi á t.d. nauðsynjavöru, eins og hér er lagt til varðandi matarskattinn.