144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ræðu hans. Skiljanlega fór hann yfir nokkra þá málaflokka sem eru á áhugasviði hans ásamt því að fara örlítið yfir málefni innanríkisráðuneytisins, en eins og allir vita þá var hv. þingmaður innanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili.

Hann er nokkuð gagnrýninn á fjárlagafrumvarpið og lítur svo á að það sé skapað af hinni einu sönnu brauðmolahagfræði sem ég rengi og mótmæli, því svo er ekki. Þingmanninum varð líka tíðrætt um bótakerfi. Nú langar mig til að fá sjónarhorn þingmannsins á því hvers eðli húsaleigubætur eru og vaxtabætur.

Það hefur komið fram í umræðunni við gerð þessara fjárlaga og það stendur í frumvarpinu og breytingartillögum að bæta eigi við 400 millj. kr. í húsaleigubætur vegna breytinga á virðisaukaskattskerfi. Deilir þingmaðurinn þeirri skoðun minni að þegar húsaleigubætur eru hækkaðar séu það ekki leigjendur sjálfir sem hagnast á því heldur eigendur íbúðarhúsnæðis, sérstaklega þegar er um íbúðaskort að ræða á húsaleigumarkaði? Og svo jafnframt: Er þingmaðurinn mjög hlynntur vaxtabótum í íbúðalánakerfinu? Deilir þingmaðurinn þeirri skoðun með mér að því hærri sem vaxtabætur eru, því meira svigrúm hjá bönkunum til að hafa háa vexti, því vextirnir sem bankarnir bjóða lántakendum eru raunverulega niðurgreiddir af ríkinu sem nokkurs konar ríkisstyrkur?