144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Almennt er því til að svara frá mínum bæjardyrum séð að ég er hlynntur lágum vöxtum, hóflegum vöxtum og ég er hlynntur hóflegri húsaleigu. Hvar fáum við hóflega húsaleigu? Hana fáum við í félagslegu kerfi, t.d. í félagslega íbúðaleigukerfinu í Reykjavík. Þar er boðið upp á húsnæði með lægri leigu en gerist almennt á uppsprengdum markaði. Þannig að svar mitt er fyrst og fremst þetta: Ég vil lága vexti og stuðla að lágum vöxtum og ég vil stuðla að hóflegri húsaleigu sem við tryggjum með félagslegu kerfi. Þetta er í grundvallaratriðum mín afstaða.

Síðan má alltaf deila um það hvert stuðningur við leigjendur eða húsnæðiskaupendur renni, hver það er sem hefur af slíkum stuðningi hagsbætur. Ætli það séu ekki allir aðilar sem að slíkum málum koma? Ég er að minnsta kosti fylgjandi því að hafa félagslegt húsnæðiskerfi og þar með leigukerfi að einhverju leyti og stuðning í formi húsaleigubóta, en jafnframt stuðning við þá sem eru að kaupa húsnæði.

Sú hugsun ruddi sér til rúms á síðasta kjörtímabili og við vorum einhuga um það að stuðla að því að stuðningur við húsnæðiskaupendur og leigjendur yrði að einhverju leyti sambærilegur. Það var hugsunin á bak við það kerfi sem við höfum viljað smíða. Þar held ég að stjórnarflokkarnir í fyrrverandi ríkisstjórn hafi verið fullkomlega á einu máli. Ég legg mikla áherslu á að sveitarfélögin stuðli að félagslegu leigukerfi. (Forseti hringir.) Ég er ekki hrifinn af leigukerfi á almennum braskmarkaði. Hann keyrir leiguna upp.