144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað nú í aðra ræðu mína um fjárlagafrumvarp næsta árs. Í fyrri ræðu minni rakti ég nokkur atriði, sérstaklega með hvaða hætti gengið væri fram í fjárlagatillögum á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins með tillögum um að ganga á samningsbundin réttindi launþega, niðurskurð á málasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sérstaklega hvað varðar Ríkisútvarpið, háskólana og þá ömurlegu stefnumörkun að loka framhaldsskólunum fyrir nemendum yfir 25 ára aldri, og almenna stefnumörkun sem birtist í fjárlagafrumvarpinu um að halda opinberri þjónustu við sveltistig og auka á almenna kostnaðarþátttöku í hverju formi sem er.

Ég vildi í síðari ræðu minni fjalla örstutt um einstaka þætti frumvarpsins. Í fyrsta lagi verð ég þó að halda áfram með það sem ég rakti í fyrri ræðu minni sem er gagnrýnin á aðför ríkisstjórnarinnar að samningsbundnum réttindum á vinnumarkaði með tillögu um styttingu á bótatímabili atvinnuleysisbóta um sex mánuði með því að virða ekki samningsbundin framlög til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og með því að skerða framlög til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Ég rakti efnisþætti allra þessara tillagna í fyrri ræðu minni og ætla því ekki að endurtaka það hér, en vil bara vekja athygli á því að í Morgunblaðinu í morgun segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að þunglega horfi með kjarasamninga vegna þess að „stjórnvöld hjálpa ekki til“, eins og hann orðar það og nefnir sérstaklega þá þætti sem muni torvelda gerð kjarasamninga.

Af hálfu Alþýðusambandsins kom fram í viðtali við Sigurð Bessason, varaforseta Alþýðusambandsins og formann Eflingar, í fyrrakvöld í útvarpinu að það væri óhjákvæmileg afleiðing þessara tillagna í fjárlagafrumvarpi, ef þær ganga eftir, að verkalýðshreyfingin beindi kröfu til viðsemjenda sinna, til atvinnurekenda, um að bæta í kjarasamningum þau brigð ríkisstjórnarinnar á samningsbundnum réttindum sem hér er gert ráð fyrir. Það mun að öðru óbreyttu kalla á meiri kaupkröfur af hálfu verkalýðshreyfingarinnar á hendur atvinnurekendum.

Ríkisstjórnin virðist algjörlega ónæm fyrir afleiðingum gerða sinna að þessu leyti. Það hefur ekki tekist nokkurt samtal við ríkisstjórnina um afleiðingar þess að hún gangi fram, eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, og rýri kjarasamningsbundin réttindi. Það er þó greinilegt að Samtök atvinnulífsins hafa af þessu áhyggjur og vara eindregið við þessari framgöngu.

Maður hlýtur þá að spyrja: Hver er sýn ríkisstjórnarinnar á framhaldið við gerð kjarasamninga? Ætlast hún virkilega til þess, ef verið er að gera þríhliða samninga á vinnumarkaði, að einn aðilinn sætti sig við að einhliða séu tekin af honum réttindi og svo semji hann bara um hóflegar kauphækkanir á grundvelli þessara skertu réttinda? Auðvitað hlýtur sá aðili þríhliða samstarfs, sem með þessum hætti er brotið á af öðrum aðila þessa þríhliða samstarfs, eftir atvikum að beina kröfu sinni að hinum þriðja. Það er fullkomlega óeðlilegt að ætla launafólki það að bera kostnaðinn af þeim ósanngjörnu tillögum sem hér er gert ráð fyrir að verði að veruleika.

Ég held að það hljóti líka að reyna á að tillögur um að draga til baka framlag ríkisins til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Þær munu að óbreyttu fela í sér réttindaskerðingu þeirra lífeyrisþega sem veikast standa í sjálfu sér, þ.e. láglaunafólks í erfiðisvinnu sem hefur lent í örorku í ríkari mæli en aðrir. Það mun þýða að fólk í þeim starfsstéttum, sjómenn og annað fólk í erfiðisvinnu, mun þola lakari lífeyriskjör en aðrir í boði ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Í annan stað vil ég gera hér að umfjöllunarefni þátt sem ég náði ekki að nefna sérstaklega í fyrri ræðu minni. Það eru framkvæmdir við ferðamannastaði. Það er einstakt aðdáunarefni hversu stórkostlega ríkisstjórninni hefur tekist að klúðra öllu er varðar uppbyggingu ferðamannastaða. Það lá fyrir þegar hún tók við að stórfellt átak þyrfti í uppbyggingu vegna vaxtar í ferðaþjónustunni. Ríkisstjórnin var bundin af óskynsamlegu loforði sem gefið var í kosningabaráttunni um að draga til baka breytingar á virðisaukaskattskerfinu að því er varðar ferðaþjónustu. Nú er hún sjálf að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna með engum fyrirvara en hún glataði mikilvægum tíma og mikilvægu tækifæri til að afla tekna til að byggja upp ferðamannastaðina. Skógarferð hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra með náttúrupassann sem í daglegu tali gengur nú undir nafninu reisupassinn enda hætt við að hann endi sem reisupassi annaðhvort ríkisstjórnarinnar eða ráðherrans nema hvors tveggja væri — það villuljós hefur dregið úr afli ríkisstjórnarinnar að gera aðrar alvörubreytingar á umgjörð fjáröflunar fyrir uppbyggingu ferðamannastaða. Á sama tíma hefur, samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi og í fjárlagafrumvarpinu í fyrra líka, dregið úr fjárveitingum til uppbyggingar ferðamannastaða, sem þó voru ekki nægar fyrir.

Fram kom í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um þessi mál að fulltrúar ferðaþjónustunnar hefðu af því þungar áhyggjur vegna þess að jafnvel þó að reisupassinn yrði að veruleika þá mundi taka tíma að láta það kerfi virka og það mundi ekki verða að fullu fjármagnað fyrr en á árinu 2017. Þá verður blessunarlega komið að ríkisstjórnarskiptum og allar horfur á því að okkur takist að losna við þessa ógæfusömu ríkisstjórn. Þar af leiðandi verður ekki fullnægjandi fjármagn fyrir hendi til uppbyggingar ferðamannastaða úr þessum sjóði fyrr en sumarið 2017 og fram á haustið 2017. Hin glötuðu tækifæri halda því áfram að hrannast upp og áfram verður gengið á viðkvæma ferðamannastaði án nokkurrar úrlausnar af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni gafst mér ekki heldur færi á að fjalla um byggðamál. Við í þingflokki Samfylkingarinnar lögðum í haust fram þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í byggðamálum, sem var í 11 liðum. Ég vil hrósa ríkisstjórninni fyrir að í fjárlagafrumvarpinu er að sjá framlag til fjarskipta, sem er að því leyti í samræmi við þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar frá því í haust. Háhraðatengingar eru um allt land og hringtenging ljósleiðara er grundvallarforsenda byggðar og atvinnulífs í landinu og er ekki hægt að líta á lengur sem jaðarmálefni heldur er hún jafn mikilvæg og uppbygging vegakerfis.

Ég vil líka nefna jöfnun húshitunarkostnaðar sem ekki hefur verið staðið nægilega vel að og einkanlega fyrir þá þrákelkni iðnaðar- og viðskiptaráðherra að vera einbeitt í því að leggja gjöld á almenning í landinu einvörðungu í þessu efni en hlífa stórnotendum raforku. Það er eins og í öðru sem frá þessari ríkisstjórn kemur að hún getur bara eitt, það er að skatta venjulegt fólk. Það er sama hvað það er. Með reisupassanum borgar venjulegt fólk á Íslandi fyrir afnot af náttúruauðlindinni í staðinn fyrir að álögur séu lagðar á atvinnugreinina sjálfa sem er í bullandi uppbyggingu og er tilbúin að bera slíkar álögur sjálf. Þá velur ríkisstjórnin þann kost að leggja álögur á fólk. Þegar kemur að jöfnuninni á húshitunarkostnaði eru til tvær leiðir. Önnur er leið þverpólitískrar nefndar sem leidd var af sóma Alþingis, hæstv. forseta þess, Einari K. Guðfinnssyni, í sinni tíð og fól í sér að gjald yrði lagt á alla notendur, líka stórnotendur — nei, nei, þá velur þessi ríkisstjórn aftur kjörleið sína að leggja almennar álögur á venjulegt fólk og hlífa atvinnugreinunum, stórnotendunum.

Virðulegi forseti. Ég vil einnig gera að umtalsefni skort á efndum ríkisstjórnarinnar í fögrum fyrirheitum á sviði almannatrygginga. Fyrir kosningar lofaði ríkisstjórnin fullri úrlausn á mörgum sviðum, m.a. að afnema skerðingar krónu á móti krónu. Það er ekkert gert í því í þessu fjárlagafrumvarpi. Það eina sem ríkisstjórnin hefur gert á sviði almannatrygginga er að tryggja fjárveitingar í fyrra til að standa við efndir þess lagaákvæðis sem sett var í lög í hruninu í árslok 2009 um að skerðingar á kjörum lífeyrisþega og hækkun tekjuskerðingarmarks yrði afnumin við árslok 2013. Ríkisstjórnin hefur með öðrum orðum ekki lagt eina einustu nýju tillögu fram eða fengið samþykkta á Alþingi um breytingar á almannatryggingakerfinu, engu hefur verið bætt í. Króna á móti krónu-skerðingar halda áfram og verða sífellt erfiðari. Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara hafa sett fram greiningar þess efnis að lífeyrisþegar hafi setið eftir í samanburði við almennt launafólk.

Að því er varðar Framkvæmdasjóð aldraðra þá hef ég gagnrýnt það á öðrum vettvangi með hvaða hætti ríkisstjórnin gengur þar fram. Í tíð minni sem félagsmálaráðherra var hafist handa um leiguleið sem tryggð var með lánveitingu úr Íbúðalánasjóði til sveitarfélaga sem væru til í að byggja hjúkrunarheimili og fá byggingarkostnaðinn greiddan til baka frá ríkinu á 40 árum. 100% lán voru veitt í þessu skyni úr Íbúðalánasjóði. Þetta er skynsamleg leið þegar ekki er til nægjanlegt fé til uppbyggingar þjónustu sem við vitum að við þurfum á að halda og munu þurfa á að halda í áratugi.

Nú boðar hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé ekki skynsamlegt, það sé ekki gott að vera að taka svona mikið af lánum, en á sama tíma gengur hann í Framkvæmdasjóð aldraðra og þurrkar upp það framkvæmdafé sem þar er fyrir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki enn útskýrt þau töfrabrögð sem hann hyggst beita til þess að byggja hjúkrunarheimili fyrir peninga sem ekki eru til fyrst hann er ekki tilbúinn að taka lán fyrir byggingu þessara sömu hjúkrunarrýma. Ríkisstjórnin stefnir því í algjört óefni hvað varðar uppbyggingu hjúkrunarheimila. Það blasir við að þegar stjórnartíma þessara ríkisstjórnarflokka lýkur verður sams konar neyðarástand vegna hjúkrunarrýma og var þegar við tókum við, þegar Samfylkingin settist í félagsmálaráðuneytið árið 2007, þegar verið var að flytja fólk hreppaflutningum. Aldrað fólk úr Mosfellsbæ var flutt á Dalvík til að eyða þar ævikvöldinu því að þar var laust rými. Fólk af Seltjarnarnesi var flutt á Kirkjubæjarklaustur vegna þess að þar fannst laust rými. Fólk sem aldrei hafði komið áður á þessa staði var þar með svipt þeim mannréttindum að fá að eyða ævikvöldinu með fjölskyldu, ættingjum og vinum. Það blasir að óbreyttu við að þetta verður ástandið þegar núverandi ríkisstjórn fer frá.

Virðulegi forseti. Mig langar að síðustu að gera hér að umtalsefni í þessu almenna samhengi barnabæturnar og fréttirnar sem við fengum í gær af minni hagvexti en gert hafði verið ráð fyrir. Skattstefna ríkisstjórnarinnar einkennist af þeirri brauðmolahagfræði sem OECD kvað upp dauðadóm yfir í dag með útgáfu nýrrar skýrslu. Það er ekki hægt að byggja velsæld á því að gera vel við þá allra ríkustu í samfélaginu en gera ekkert fyrir fjöldann. Þvert á móti er það margsannað mál að besta leiðin til að tryggja efnahagslega velsæld, auka einkaneyslu og auka umsvif í hagkerfinu er að gera fjöldanum kleift að njóta lífsgæða, gera vel við fjöldann. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa miðað að því að auka álögur með ýmiss konar gjaldtöku á almenning, venjulegt fólk, draga úr skattheimtu á allra ríkustu fyrirtækin, á allra ríkustu einstaklingana og þeim mun neðar sem komið er í tekjustigann þeim mun rammar kveður að þessari ósvinnu.

Þegar skattatillögur ríkisstjórnarinnar litu dagsins ljós fyrir jól í fyrra, þar sem tekjuskatturinn var lækkaður um 5 milljarða, fólu þær í sér að fólk með 800 þús. kr. og yfir mundi fá 5 þús. kr. í skattalækkun á mánuði en fólk með 300 þús. kr. mundi fá 500 kr. í skattalækkun á mánuði og fólk með undir 250 þús. kr. fengi ekki eina einustu krónu. Barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. vegna þess að það fólk er með svo miklar tekjur og eru að fullu skertar við 500 þús. kr. þannig að fólk með yfir 500 þúsund fær engar greiðslur úr ríkissjóði með börnum sínum. Það leiðir mig að þeirri niðurstöðu að ekki sé um eiginlegar barnabætur að ræða heldur lágtekjubætur fyrir barnafólk.

Við blasir að fólkið í neðsta tekjustiganum fékk ekki neitt úr skattbreytingu ríkisstjórnarinnar í fyrra. Við gátum með eftirgangsmunum og með tilstyrk verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum 21. desember í fyrra pínt ríkisstjórnina til að breyta útfærslunni hvað meðaltekjuhópana varðar og tryggt þar með að aðeins stærri hluti skattalækkunarinnar lenti hjá fólkinu neðar í tekjustiganum en ríkisstjórnin stefndi að í upphafi. Þessi heildarmynd er þannig að meðaltekjufólkið hefur borið vaxandi byrðar, lágtekjufólkið enn meiri vöxt hlutfallslegrar útgjaldabyrði og við sjáum ekki fyrir endann á þeirri þróun enn þá. Vegna kjarasamninganna fyrir ári er ekki enn kominn til framkvæmda nærri milljarður af auknum gjaldskrárhækkunum vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að hækka laun sérfræðilækna í boði almennings í landinu. Almenningur á að borga alla launahækkun sérfræðilækna samkvæmt nýjum samningi fyrr á árinu, ríkið ætlar ekkert að bera af því.

Í draumaheimi þessarar ríkisstjórnar verða skattar á því stigi sem þeir eru nú. Við munum ekki geta hreyft okkur spönn frá rassi án þess að greiða fyrir það. Allt mun kosta, aðgangur að framhaldsskóla, aðgangur að heilbrigðisþjónustu, aðgangur að náttúruperlum, aðgangur að öllu því sem við teljum sjálfsögð lífsgæði og ætti að öðrum kosti að vera fjármagnað af almennri skattheimtu.