144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Æruverðugi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Spurningin er afskaplega góð eins og hennar er vandi. Ég tel mikilvægt að horfa á þennan þátt í nokkuð víðu samhengi. Þetta tengist fjölmörgum vandamálum sem eru alþjóðleg í eðli sínu. Innflytjendavandi Vesturlanda, sem við sjáum að reynir mjög á samfélagsgerð okkar þjóðar og þjóðanna í kring, er líka ein birtingarmynd vaxandi misskiptingar. Eins og einn ágætur prófessor sagði, sem kenndi mér alþjóðarétt í gamla daga í útlöndum, að eini veggurinn sem héldi fólki fyrir utan, sem héldi fólki heima hjá sér, væri veggur velsældarinnar og lexían væri því sú að skapa velsæld í heimaríkjum fólks þannig að það þyrfti ekki að flytja til þess að öðlast betra líf.

Mér finnst þess vegna miklu skipta að við beitum okkur í þessari skattaskjólsumræðu á alþjóðlegum vettvangi. Mér þykir miður hversu ríkisstjórnin hefur reynst rasssíð í því máli og duglítil til aðgerða. Það þarf að kaupa þessar upplýsingar, fá þær sem fyrst. Síðan eigum við líka að beita okkur af ákveðni gagnvart gömlum vinaríkjum eins og Lúxemborg og öðrum ríkjum þar sem undarleg framganga hefur viðgengist árum saman. Við eigum að segja að þetta sé samfélagslega óásættanlegt, þetta sé siðferðislega ámælisvert. Og við eigum að beita okkur á alþjóðavettvangi gagnvart þessum ríkjum, tala því máli að svona framganga grafi undan velferð okkar allra.