144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Æruverðugi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég er nokkuð sammála hv. þingmanni. Mér finnst óþægilega margt benda til þess í þessu fjárlagafrumvarpi að það sé einhver skortur á samhygð sem ræður för og skortur á örlæti í garð þeirra sem lakar standa. Mér er nokkuð hugstætt úr orðaskiptum mínum við hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum vikum um framhaldsskólann þegar hann sagði í þingsal í svari við fyrirspurn minni að fólk hefði fengið nóg af tækifærum til að ljúka framhaldsnámi og þyrfti ekkert á því að halda að fara í framhaldsnám eftir 25 ára aldur. Ég stóð í þeirri meiningu að samfélagssýn okkar væri ekki afmarkaður fjöldi tækifæra í lífinu. Það er þannig að fullt af fólki og þorri fólks tekur ákvarðanir út frá aðstæðum í lífi sínu á hverjum tíma. Fólk getur kosið að hverfa frá námi. Það getur til dæmis átt við erfiðar aðstæður að glíma og það hverfur frá námi. Það getur eignast börn í námi og þurft að vinna fyrir sér. Það hefur vissulega fengið tækifæri til að læra, en það hafa aðrir hlutir gerst og annað val verið tekið. Það val er ekki endilega verra og það fólk hefur ekki fyrirgert inneign sinni til samfélagslegra úrlausna, að mínu viti. Það borgar sína skatta. Og þegar það kýs að fara aftur í framhaldsnám þá finnst mér að það eigi að gera það.

Það er sú sýn að það sé rétt að gefa takmörkuð tækifæri og viðhorf um að það sé samfélagslega ámælisvert að lifa ekki viðurkenndu millistéttarlífi sem mér finnst skína í gegn um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessu fjárlagafrumvarpi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)