144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er svolítið merkilegt með þessa flokka sem nú eru við völd og sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn sem var með slagorð og hugmyndafræði sem var kölluð „stétt með stétt“ en ég sé frekar sem „gjá með gjá“ miðað við hvernig þetta lítur út. Mér finnst einsýnt að bilið á milli þeirra ríkustu og þeirra sem lítið eiga heldur áfram að breikka, þarna er gjá. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið hér við völd nánast linnulaust í átján ár og tilhugsunin eftir þetta eina og hálfa ár, þegar ég horfi upp á þessi fjárlög, um að það séu kannski sextán og hálft ár eftir veldur mér verulegum áhyggjum og sér í lagi af því að ég held að það verði ekkert eftir ef áfram heldur sem horfir.

Það sem mér finnst líka athyglisvert er að maður horfir á þetta frumvarp og það er rými. Ef menn mundu til dæmis kaupa þessar skattaskjólsupplýsingar er töluvert mikið rými til þess að bregðast við bráðavandanum. En það hefur ekki verið hægt að fá skýr svör um hvort það sé hægt eða vilji til þess að framkvæma það. Þeir segja það núna en ég á eftir að sjá það endurspeglast í til dæmis fjárlögum.

Telur þingmaðurinn að það sé einhver innstæða fyrir þessum loforðum rétt fyrir jól um að kaupa þetta?

Svo langar mig að minna á það að stærsta skattaskjól í heiminum er í City of London, þannig að við ættum (Forseti hringir.) að byrja á að tala við vini okkar Bretana um það sem gerist þar.