144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur orðið einhver misskilningur hér á röð ræðumanna. Ég vildi við lok 2. umr. um fjárlögin fyrst og fremst fá að brýna hv. fjárlaganefnd til góðra verka á milli umræðna og helst auðvitað að brýna stjórnarmeirihlutann við atkvæðagreiðsluna á morgun en þá koma tillögur stjórnarandstöðunnar sem eru sameiginlegar tillögur um mikilvægar úrbætur á fjárlagafrumvarpinu til atkvæða.

Ég vil sérstaklega í lok umræðunnar fá að hvetja meiri hluta fjárlaganefndar til að draga til baka milli 2. og 3. umr. þá lækkun á örorkubótum sem gerð var á milli 1. og 2. umr. og líka á lífeyrisgreiðslum til aldraðra. Ég held að það sé sjálfsagt réttlætismál að þeir hópar fái að njóta þeirra fjárveitinga sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi og það sé ekki undir forustu Framsóknarflokksins sem tillögur Sjálfstæðisflokksins séu skornar niður um framlög til lífeyrisþega. Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa umræðu.