144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú er komið fram yfir miðnætti samkvæmt minni klukku og ég ætla ekki að tala lengi. En ég vil nefna sérstaklega að í tillögu minni hlutans er tillaga um aukið fjárframlag til mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að koma í verk þingsályktun sem var samþykkt á hinu háa Alþingi árið 2010 með öllum greiddum atkvæðum. Það var tillaga til þingsályktunar um að Íslandi skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Á þeirri tillögu voru ekki bara hv. þm. Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari heldur einnig hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hv. formaður fjárlaganefndar Vigdís Hauksdóttir, hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jónsson og hv. þm. Ögmundur Jónasson þannig að það var mikil samstaða um þetta mál. Mér þykir það hálfskrýtið og leiðinlegt að þingið þurfi sérstaklega að beita sér fyrir því að vilja þess sé framfylgt af framkvæmdavaldinu og sérstaklega að minni hlutinn þurfi að berjast fyrir því, þegar þetta ætti einfaldlega að verða að veruleika. Hér er um að ræða hluta af þingræðinu þegar allt kemur til alls. Ég vænti þess að hv. fjárlaganefnd taki þessa breytingartillögu alvarlega til athugunar, ég vona að hún geri svo og lýk máli mínu með því.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.