144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef undrað mig nokkuð á umræðu um Ríkisútvarpið í kringum þessa fjárlagaumræðu hér, ekki síst vegna þess að vorið 2013 samþykkti Alþingi ný lög um Ríkisútvarpið sem fjölmiðil í almannaþágu. Það frumvarp varð að lögum með atkvæðum þingmanna allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn studdi þessi nýju lög og tók undir þau sjónarmið sem þar komu fram, bæði um hvert hið lögbundna hlutverk Ríkisútvarpsins væri og hvernig ætti að teikna upp umgjörðina í kringum RÚV.

Ríkisstjórnin hefur nú boðað að hún vilji lækka útvarpsgjaldið sem er alls ekki hátt í alþjóðlegum samanburði, sérstaklega ekki þegar við horfum á það hversu fámenn þjóð við erum, lækka útvarpsgjaldið sem alla ekki hefur fylgt þróun annarra fjárveitinga, útvarpsgjaldið sem stjórn Ríkisútvarpsins hefur sagt að halda þurfi óbreyttu. Og meiri hluti stjórnarinnar, sex af níu fulltrúum, er beinlínis skipaður af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hér í þessum sal. Við þurfum að halda útvarpsgjaldinu óbreyttu, segir stjórnin, og það þarf að renna óskert til stofnunarinnar til að hún geti sinnt því lögbundna hlutverki sem henni er markað í lögunum sem Framsóknarflokkurinn samþykkti vorið 2013.

Það sem hefur komið mér á óvart í þessari umræðu er einmitt breytt afstaða Framsóknarflokksins. Af hverju ætlar Framsóknarflokkurinn að standa á bak við það að gera Ríkisútvarpinu ókleift að sinna því lögbundna hlutverki sem flokkurinn hefur áður stutt við í atkvæðagreiðslum á þingi? Af hverju ætlar Framsóknarflokkurinn ekki að taka tillit til þess mats stjórnar félagsins sem skipuð er af meiri hluta, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, stjórnar sem leggur þetta fram hér sem sína afstöðu og ályktun, að svona þurfi þetta að vera ef stofnunin eigi að geta sinnt hlutverki sínu?

Mig langar að spyrja hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, sem situr í hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir hönd Framsóknarflokksins, um þetta því að ég trúi ekki öðru en að þetta sé nokkuð sem sá flokkur (Forseti hringir.) vilji taka til nánari skoðunar milli 2. og 3. umr.