144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Okkur er mörgum umhugað um RÚV eins og hér hefur komið í ljós í dag og gjarnan áður. En málið snýst um núverandi stöðu RÚV, ekki eitthvað sem hefur gerst áður heldur núverandi stöðu RÚV. Því langar mig að eiga orðastað við hv. þingmann Framsóknarflokksins, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, sem sat fund ásamt mér í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem stjórn og framkvæmdastjórn RÚV komu á fund.

Þar var talað um ögurstund í starfi Ríkisútvarpsins og þar var okkur gerð grein fyrir því að ef fjárlögin fara í gegn eins og þau líta út í dag ásamt því sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til þá breytir það ekki þeirri stöðu að um verður að ræða gríðarlegan niðurskurð; og ekki bara niðurskurð heldur hreinlega upptöku á öllu því sem við þekkjum og útvarpið hefur staðið fyrir, þetta séu slík inngrip.

Ég trúi því að hv. þingmaður, sem kemur úr sveit þar sem fólk hefur treyst mjög mikið á Ríkisútvarpið og sjónvarpið, líti þetta öðrum augum en margur annar sem hefur aðgang að öllum þeim miðlum sem hugsast getur. Stjórn Ríkisútvarpsins er sammála, pólitískt skipuð, eins og hér hefur komið fram, og því er það áhyggjuefni ef ríkisstjórnin telur hana ekki standa fyrir því sem henni þóknast.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Telur hún ekki að við eigum að fara eftir því sem þessi stjórn segir, sem við fólum þetta verkefni; að stilla málinu þannig upp að þau fái til þess fjármuni til að þau geti eflt innlenda dagskrárgerð, íslenskt efni, til að við getum varðveitt þjóðararfinn og byggt upp innviðina? Það liggur nefnilega líka fyrir að töluverða peninga þarf í dreifikerfið sem hefur setið á hakanum undanfarið.

Ef þessi fjárlög fara í gegn er ekki bara dreifikerfið undir (Forseti hringir.) heldur öll dagskrárgerð og nánast upptekt á útvarpslögum.