144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir að beina þessum spurningum til mín og ræða hérna um Ríkisútvarpið, þann ríkisfjölmiðil.

RÚV hefur jú skyldur sem er hægt er að sjá bæði í þjónustusamningi og í lögum. Meðfram því að sinna því hlutverki hefur RÚV verið að vinna með þá kröfu sem gerð hefur verið um að RÚV hagræði í rekstri sínum og aðlagist breyttum forsendum. Meðal annars hefur það komið fram hjá stjórn RÚV að auðvitað er sanngjarnt að ætlast til betri rekstrargrundvallar hjá fyrirtækinu, að það þurfi að sýna fram á að þau séu líka að taka til í sínum málum, og RÚV verður fyrst og fremst að horfa á lögbundið hlutverk sitt. Ég tel að ekki sé hægt að nota almannavarnarákvæðið til þess að sækja í pening til annarra starfa en þeirra beint og RÚV þarf að ákveða rekstur sinn til næsta árs og framtíðar og það hefur einmitt verið sett sem forsenda fyrir aukafjárveitingunni núna.

Virðulegi forseti. Framlag ársins 2015 væri þá um 3.680 millj. kr., eins og fram hefur komið, og þar af 181,9 millj. kr. háðar þessum skilyrðum. Nú hefur gott verk verið unnið eftir að nýir stjórnendur tóku við á RÚV á vormánuðum þessa árs. Án þess að verið sé að lasta fyrri stjórnendur þá tók við endurskipulagning og hagræðing hjá Ríkisútvarpinu. Það hefur verið talað um að útvarpsgjaldið hér á Íslandi sé lágt og samt sem áður er það lægra í Danmörku og Svíþjóð en þar er aðgangur að ríkissjónvarpi samt sem áður mun meiri en hjá okkur á Íslandi og þá út fyrir landsteinana.

Þingmaðurinn sem hér stendur býr á svæði þar sem lengi vel var aðeins hægt að ná RÚV en þau undur gerðust nú bara um síðustu helgi að Stöð 2 og fleiri stöðvar duttu inn á heimilið. Einblínt hefur verið á að dreifikerfið sé að styrkjast og halda ætti þeirri uppbyggingu áfram. En þá tel ég að ekki eigi einungis að horfa til RÚV í þeim málum heldur eigi að bæta kerfið svo fólk á landsbyggðinni geti valið um þá þjónustu sem það óskar eftir. RÚV er að sinna lögbundnu hlutverki sínu og það gæti það vel áfram með þessa fjárveitingu, en sú sem hér stendur telur mjög mikilvægt að haldið sé í hið lögbundna hlutverk.

Spurningin sem ég tel að við ættum að vera að tala um hér og sú sem RÚV þarf að fara að athuga er þessi: Hvað á RÚV (Forseti hringir.) að vera? Um leið og RÚV hefur skilgreint það er hægt að taka frekari ákvarðanir um fjármögnun eins og hægt væri að gera ef við förum að tala um hækkað útvarpsgjald eða breytt lög á næsta ári.