144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða um frumvarp til fjárlaga sem við höfum rætt hér síðustu daga við 2. umr. og bent á fjölmarga ágalla. Við í stjórnarandstöðunni höfum sameinast um breytingartillögur til að reyna að sníða verstu ágallana af þessu frumvarpi. Þar ber hæst að við leggjum til að dregnar verði til baka stórfelldar kostnaðarhækkanir og álögur á sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Við leggjum til að áfram verði mögulegt fyrir fólk yfir 25 ára aldri að sækja sér framhaldsnám í bóknámsskólum og við leggjum til þjóðarsamstöðu um almannaútvarpið RÚV, um að Ríkisútvarpið verði raunverulega áfram það almannaútvarp sem það var stofnað til að vera og að við hér á Alþingi endurspeglum þá þverpólitísku samstöðu sem myndast hefur í stjórn Ríkisútvarpsins um að verja það hlutverk.

Ég hlakka til að fylgjast með atkvæðagreiðslunum hér á eftir og ég ber þá von í brjósti að stjórnarþingmenn styðji tillögur okkar í stjórnarandstöðunni.