144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er frumvarp sem er á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og ríkisstjórnarflokkanna, lýsir stefnumörkun þeirra og forgangsröðun. Við í Bjartri framtíð höfum haldið því skýrt til haga að við hefðum viljað sjá allt aðra forgangsröðun í ríkisrekstrinum á þessum tímapunkti, við hefðum viljað sjá miklu skýrari forgangsröðun í þágu heilbrigðismála og menntamála, svo dæmi sé tekið af þessum grunnatriðum í velferðarkerfinu og ríkisrekstrinum. Við hefðum alls ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt að setja 20 milljarða á ári í kosningaloforð Framsóknarflokksins sem heitir skuldaleiðrétting. Hún er óréttlát, ómarkviss og lýsir ótrúlegu ábyrgðarleysi að okkar mati og við munum að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn henni. Bara með því, ef aðrir þingmenn færu að ráðum okkar í því, væri hægt að losa umtalsverða fjármuni til að greiða til dæmis niður skuldir ríkisins (Forseti hringir.) eða leggja til innviða í velferðarkerfinu.