144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga er angi af mun stærri umræðu sem lýtur að því hvernig aðilar hafa sumir hverjir farið fram hjá þeirri skattalöggjöf sem hér gildir. Það er mjög mikilvægt að við gerum hvað við getum til að byrgja þann brunn. Til þess þarf bæði alþjóðlegt samstarf, það þarf betra skatteftirlit og ég hef verið mikill talsmaður þess að við kaupum upplýsingar sem gætu leynst í skattaskjólum um heim allan.

Okkur er sagt, sem berum þessa tillögu fram hér í minni hlutanum, að þetta séu jafnvel varlega áætlaðar tekjur sem gætu skilað sér af þessari aðgerð. Þó að taflan sýni annað finnst mér ólíklegt annað en að meiri hlutinn geti fallist á að gera ráð fyrir þessum tekjum í áætlunum sínum og ég held að þetta sé, eins og ég segi, miklu stærra verkefni sem við eigum að vinna áfram að á næstu árum.