144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér gerir minni hlutinn tillögu um tiltölulega mjög hógværa hækkun tekna af veiðigjöldum frá sjávarútveginum, borið saman við það sem er í frumvarpinu sjálfu, að þær verði um 10,7 milljarðar í staðinn fyrir rúma 8 milljarða eins og frumvarpið hljóðar upp á. Það er hógvær tillaga í ljósi þess að afkoma sjávarútvegsins er með afbrigðum góð þessi missirin og árin. Nú í vetrarbyrjun kom ný verðvísitala fyrir sjávarútveginn og er hún sú hæsta í sögunni, aldrei áður í sögunni hefur afurðaverð sjávarútvegsins að meðaltali verið jafn hátt og núna. Fyrirtækin skila uppgjörum með methagnaði og moka milljörðum á milljarða ofan í arðgreiðslur til eigenda sinna. Það er þess vegna alveg ljóst að hin ítrekaða góðvild ríkisstjórnarinnar við gróðafyrirtækin í sjávarútvegi er með öllu tilefnislaus. Það er engin ástæða til að sækja ekki þá fjármuni sem þörf er fyrir víða í okkar kerfi að einhverju leyti í þessa átt. Ég endurtek að hér er hógvær tillaga á ferðinni um 2,7 (Forseti hringir.) milljarða hækkun tekna af veiðigjöldum í ljósi afkomu greinarinnar.