144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er veiðigjald sem er innheimt vegna þess að ákveðnir aðilar geta undanskilið alla aðra frá því að veiða úr sameiginlegri auðlind landsmanna. Þetta er gjald sem tekið yrði af hagnaði þannig að það hefur ekki áhrif á hvort menn fjárfesta í greininni eða ekki. Menn geta fjárfest og það kemur inn sem kostnaður á móti tekjunum og það sem út af stendur er hagnaður þannig að menn geti einmitt fjárfest mikið til þess að þurfa ekki að borga þennan skatt, þetta veiðigjald. Þetta er mjög sanngjarnt gjald fyrir að útiloka alla aðra frá því að nýta sameiginlega auðlind okkar. Hvers vegna er verið að lækka það trekk í trekk þegar hin litla hækkun sem koma á á móti er 90% af þeirri fjárþörf sem forstöðumenn heilbrigðisstofnana landsins segja að sé nauðsynleg til að veita nauðsynlega þjónustu, bara svo menn átti sig á því?