144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér sýnist að með þessari breytingartillögu meiri hlutans á fjárhæð veiðigjalda á næsta ári sé fjórða lækkun veiðigjalda frá því að þessi ríkisstjórn komst til valda á ferðinni. Hún hófst handa strax vorið 2013, síðan aftur þá um haustið í fjárlagafrumvarpi, í þriðja sinn þegar fjáraukalög þessa árs komu fram og nú er hér á ferðinni fjórða beina lækkunin á veiðigjöldum á innan við tveimur árum frá ríkisstjórninni. Í stað þess að þau verði rúmir 8 milljarðar á næsta ári verða þau aðeins 7,3 milljarðar í heild. Þá erum við að tala um veiðigjöld í heild, bæði almennan og sérstækan hluta þeirra. 7,3 milljarða veiðigjöld af um 80 milljarða framlegð og þar af auðlindarentu væntanlega af stærðargráðunni 35–40 milljarðar er auðvitað orðin alveg ótrúleg tala, satt best að segja. Ég sé enga ástæðu til þess, allar upplýsingar sem við höfum um afkomu greinarinnar sýna að að minnsta kosti stærri og stöndugri fyrirtækin þar gætu lagt meira af mörkum og eiga auðvitað að gera það. (Forseti hringir.) Af hverju ætti þjóðin, eigandi auðlindarinnar, ekki að krefjast einhverrar sanngjarnrar hlutdeildar í umframhagnaðinum sem þarna er á ferðinni? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)