144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt er að stjórnarmeirihlutinn vilji ekki kannast við þá afbökun sem orðið hefur á fjárlagaliðnum um breytingartillöguna sem hér voru greidd atkvæði um áðan, en við hljótum að kalla eftir því að meirihlutaflokkarnir á Alþingi í dag standi við þá þverpólitísku samstöðu sem varð hér á síðasta kjörtímabili um fjölbreytt atvinnulíf, um nýjar leiðir til þess að auka verðmæti í þessu landi og nýta sérstöðu Íslands og möguleika Íslands til þess að skapa grunn fyrir græna atvinnusókn. Það er algjörlega ótrúlegt að sjá þröngsýnina og aftanúrkreistingshátt þessa stjórnarmeirihluta, að menn skuli ekki geta sótt fram eða séð framtíð í nokkrum sköpuðum hlut í atvinnuþróun.