144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með það að sú góða tillaga sem var hér á undan og snerist ekki um neina tölu heldur um að segja hlutina eins og þeir eru skyldi ekki njóta stuðnings stjórnarflokkanna. Ég skil ekki alveg af hverju hlutirnir mega ekki heita það sem þeir eru, nema ef stjórnarflokkunum finnst lýsingin ekki hafa verið nógu nákvæm, að það þyrfti að koma betur fram hvílíkur geðþótti er að baki útdeilingu fjár úr forsætisráðuneytinu undir þessum lið. Kannski finnst stjórnarmeirihlutanum það og þá kemur væntanlega fram tillaga fyrir 3. umr. fjárlaga um það hvað stjórnarmeirihlutanum finnst að þessi liður eigi að heita. Að minnsta kosti heitir hann alveg örugglega ekki með réttu Græna hagkerfið, vegna þess að þessi liður snýst ekki um þær 50 tillögur sem þingheimur allur samþykkti hér. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er stjórnarmeirihlutinn þeirrar skoðunar að í fyrsta lagi megi ekki halda áfram með græna hagkerfið og í öðru lagi á að dulbúa dekurverkefni forsætisráðherra með þessari grænu skikkju, (Forseti hringir.) þessari grænu dulu. Hvar er eiginlega gagnsæið, hvar eru hugsjónirnar? Hvar er hv. formaður fjárlaganefndar í bættum vinnubrögðum? Ég er alveg orðlaus. (Gripið fram í.) (GÞÞ: Þú ert nú ekki orðlaus.)