144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér eru þau ánægjulegu tíðindi að það er verið að auka framlag til háskólastigsins á Íslandi. Sú hugsun er að baki varðandi dreifingu þessara fjármuna að mæta þeim vanda, sem núverandi ríkisstjórn tók svo sannarlega í arf frá þeirri sem farin er frá, að það eru of margir nemendur sem ekki er greitt fyrir í háskólunum og hér eru stigin skref til að mæta því. Það var alveg nauðsynlegt. Vitanlega þýðir það að skólar þar sem sá vandi er ekki uppi í jafn ríkum mæli, eins og til dæmis í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, fá þá ekki hlutfallslega jafn mikið, en það var nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða til þess að ekki stæði áfram sú staða sem hafði verið hér árum saman, að það væru of margir nemendur sem ekki hafði verið greitt fyrir en væri verið að veita kennslu. Hér er stigið stórt skref í átt að laga það, mjög mikilvægt skref og ber að fagna því, virðulegi forseti.