144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það sem hv. stjórnarþingmaður Valgerður Gunnarsdóttir segir hér um Háskólann á Akureyri. Hann hefur sýnt mikla ráðdeild og farið í erfiðar aðgerðir til að bregðast við skertum fjárframlögum eftir efnahagshrunið og því átti að skila til baka en það er ekki gert hér nú. Þar að auki er í skýringartexta með breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar farið inn á algjörlega nýtt svið þar sem meiri hluti nefndarinnar setur inn skólastefnu sem skólinn á að fara eftir. Það er algjört nýmæli og ég mótmæli því, sit hjá við þessa atkvæðagreiðslu nú. Ég hef hvatt fjárlaganefnd til að breyta þessum texta milli umræðna. Háskólinn og háskólaráð á að fá að ráða því hvernig skólinn notar þessa peninga. Þar að auki geri ég miklar athugasemdir við það að Háskólanum á Akureyri séu einungis ætlaðar 10,3 millj. kr. af þeim 617 milljónum sem eru framlag til hækkunar kennslu á háskólastigi.

Virðulegi forseti. Það er ekki boðlegt að gera þetta á þann hátt eins og ég hef getið um, (Forseti hringir.) annars vegar hvernig nefndin ætlar að skipta sér af stefnunni og hins vegar er eitthvað vitlaust í reiknilíkani fjármálaráðuneytisins hvað þennan háskóla varðar.